Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur boðað til opins fundar á morgun. Þar verður rætt um skipan sendiherra en tilefnið er umræðurnar á Klaustri í nóvember.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hafa staðfest komu sína á fundinn.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður og formaður Miðflokksins og Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður flokksins, hafa ekki staðfest komu sína, en þeir voru líka boðaðir. Það staðfestir Helga Vala Helgadóttir, formaður nefndarinnar við Fréttablaðið.

Spurð hvort hún eigi von á Miðflokksmönnunum á fundinn, svarar Helga: „Ég veit ekki til þess að gestir hafi áður sniðgengið fundarboð fastanefnda þingsins. Og mér þykir sérstakt ef það gerist núna í þessu máli,“ segir hún.

Á Klaustri í nóvember sagði Gunnar Bragi frá því að honum hefði verið lofað sendiherrastöðu þegar hann þyrfti á að halda, vegna þess að hann hefði skipað Geir H. Haarde á sínum tíma. Sigmundur Davíð staðfesti frásögnina á Klaustri en Bjarni Benediktsson hefur sagt að slíkt samkomulag sé ekki fyrir hendi.

Fundurinn hefst klukkan hálf ellefu í fyrramálið. Upphaflega stóð til að hann færi fyrir jól en af því varð ekki.