Freyja Haraldsdóttir baráttukona og fyrrverandi varaþingmaður greinir frá því í aðsendri grein sem birtist á vef Kjarnans í kvöld að Sigmundur Davíð hafi hringt í hana „til að biðj­ast afsök­unar og jafn­framt útskýra fyrir mér hvernig ég virt­ist hafa mis­skilið þetta allt.“

Freyja segir í grein sinni að síðustu dagar hafi verið henni erfiðir og þess vegna hafi hún sem dæmi ekki mætt á Austurvöll á mótmælin í gær.

Þar kom fram í ræðu Ingu Bjarkar Margrétar Bjarnadóttur að enginn þeirra þingmanna sem hæddist að Freyju á Klaustri þann 20. nóvember síðastliðinn hafi hringt í hana til að biðja hana afsökunar.

Freyja segir að Sigmundur hafi hringt í hana seinni partinn í dag.

„Í stuttu máli útskýrði hann fyrir mér að þau orð sem hefðu verið látin falla væru ekki fötl­un­ar­tengd, eða til þess ætluð að gera grín að fötlun minni, heldur hefðu þau fallið vegna þess að póli­tískar skoð­anir mínar færu mjög í taug­arnar á Gunn­ari Braga Sveins­syni, fyrrum utan­rík­is­ráð­herra, „og fleirum“. En ekki svo mikið í taug­arnar á Sig­mundi sjálfum þó hann væri alls ekki sam­mála þeim,“ segir Freyja í grein sinni.

Hún segir síðan að Sigmundur hafi útskýrt að selahljóðin sem má heyra fólk gera í upptökunni hafi í raun verið „stóll að hreyfast“ og að uppnefnið sem þingmennirnir notuðu „Freyja Eyja“ hafi orðið til við framkvæmdir á skrifstofu Miðflokksins en þar þurfti að fjarlægja vegg til að auka aðgengi.

„Vegg­ur­inn hefði þá fengið þetta við­ur­nefni. Þetta sagð­ist hann ætla að útskýra fyrir okkur öllum í grein sem hann hefur vænt­an­lega í smíðum í þessum töl­uðu orð­um. Við bíðum öll spennt eftir þeim (hr)út­skýr­ing­um.“

Baðst afsökunar fyrir hönd alls hópsins

Freyja segist þá hafa bent honum á að uppnefnið væri mjög fötlunartengt. Sigmundur maldaði í móinn en samsinnti henni á endanum.

Samtalið hafi síðar endað á því að Sigmundur bað Freyju afsökunar fyrir hönd alls hópsins.

„Þing­mað­ur­inn sá í lok­in á­stæðu til að nefna við mig að hann bæri virð­ingu fyrir mér og „dugn­aði“ mín­um. Ég er ekki sér­lega mót­tæki­leg fyrir slíku hrósi frá manni sem sat ýmist þegj­andi eða flissandi undir þeim sam­ræðum sem hér um ræð­ir. Ég þakk­aði fyrir sím­talið og sagð­ist þurfa að melta það,“ segir Freyja.

Frábiður sér fleiri símtöl frá ófötluðum karlmönnum í valdastöðum

Hún segir síðar að eftir að hún hafi náð að melta símtalið hafi hún gert sér grein fyrir því að ekki var í raun um að ræða afsökunarbeiðni.

„Að biðj­ast afsök­un­ar en reyna sam­tímis að hrút­skýra, eft­irá­skýra og hrein­lega ljúga til um það sem átti sér stað er ekki afsök­un­ar­beiðni. Að líkja mér við dýr og upp­nefna mig (og vegg) Freyju Eyju í kjöl­far aðgeng­is­breyt­inga er aug­ljós­lega eins fötl­un­ar­tengt og það getur orð­ið. Að taka mig fyrir með þessum hætti vegna þess að póli­tískar skoð­anir mín­ar, sem byggja á fem­inískum gild­um, hug­mynda­fræði mann­rétt­inda og upp­ræt­ingu ableis­ma, fara í taug­arnar á sumum körlum, ER fötl­un­ar­fyr­ir­litn­ing og kven­fyr­ir­litn­ing. Það er líka hlut­gerv­ing. Ég er ekki bara eins og dýr heldur líka dauður vegg­ur,“ segir Freyja.

Hún segir að lokum að það séu til margar fleiri og betri leiðir til að tjá skoðanaágreining en þingmennirnir notuðu og að hún frábiðji sig fleiri símtöl þar sem „ófatl­aður karl­maður í valda­stöðu talar niður til mín og reynir að útskýra fyrir mér hvað eru fötl­un­ar­for­dómar og hvað ekki.“

Grein Freyju er hægt að lesa í heild sinni á vef Kjarnans.