„Bráðnun jökla á Ís­landi er ekkert til að kippa sér upp við,“ segir Sig­mundur Davíð Gunn­laugs­son, í grein í breska fjöl­miðlinum Spectator. Þar ráð­leggur hann les­endum að halda ró sinni og út­skýrir að bráðnun jökla væri ekkert ný á nálinni hér­lendis.

„Þótt ég hafi tekist á við bresk stjórn­völd vil ég ekki að Ís­land sé notað til að auka á kvíða þessara ná­granna okkar. Þess vegna skrifaði ég grein til að hug­hreysta þá,“ segir Sig­mundur í færslu á Face­book síðu sinni.

Börnin skelfingu lostin

„Nú berast fréttir af því að „lofts­lagskvíði” sé farinn að hafa veru­leg á­hrif á geð­heilsu fólks. Víða um lönd koma börn skelfingu lostin heim úr skólanum sann­færð um að jörðin sé að farast og þau eigi enga fram­tíð,“ segir Sig­mundur.

Hann hafi til að mynda heimildir fyrir því að barn á leik­skóla­aldri hafi hætt við að eignast gælu­dýr af ótta við að það myndi það deyja fyrir aldur fram vegna lofts­lags­breytinga.

Jarðaför Ok jökuls var haldin í sumar og minnisvarða um jökulinn stendur ,,lést af völdum loftslagshlýnunar."
Fréttablaðið/Sigtryggur

Leið­réttir mýtur

Sig­mundur vill með skrifum sínum leið­rétta þau skila­boð sem tá­reygðir frétta­menn hafa boðað í fréttum og heimildar­myndum um Ís­land. Hann tekur jarðar­för Ok jökuls sem dæmi og bendir á að meiri­hluti jökulsins hafi bráðnað fyrir um hálfri öld, síðustu ár hafi jökullinn ein­fald­lega hopað síðustu metrana.

„Sumir af jöklum Ís­lands eru tölu­vert stærri í dag en þegar land var numið fyrir um þúsund árum.“

Þrátt fyrir það segist Sig­mundur hafa tekið eftir breytingum á lofts­laginu á borð við minni snjó í gegnum árin en hann minnist þess þegar moka þurfti fjöl­skylduna úr húsinu á morgnanna á áttunda ára­tugnum. „En þrátt fyrir það hafa fyrri ára­tugar einnig verið mun hlýrri en á áttundi og níundi ára­tugurinn.

Gera úlfalda úr mý­flugu

Í lok greinarinnar brýnir Sig­mundur svo fyrir les­endum að alda gömul trú um að náttúru­ham­farir séu af­leiðingar synda mannsins standist ekki tímans tönn. „Það þýðir ekki að við ættum ekki að virða náttúruna og vernda um­hverfið,“ segir hann en bætir við að það sé þó mikil­vægt að gera ekki úlfalda úr mý­flugu.

„Ég vona að bók­stafs­trúar­menn takk því ekki illa enda er mark­miðið að tala fyrir skyn­sam­legum lausnum á vandanum,“ segir Sig­mundur að lokum.

Ok jökull var 38 ferkílómetrar að stærð árið 1901 en árið 1978 var hann aðeins þrír ferkílómetrar.
Fréttablaðið/Sigtryggur