Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, svarar ásökunum Náttúruverndarsamtaka Íslands um að hann hafi vitnað í þekkta svindlara á Alþingi í gær. Farið sé með rangt mál þar sem hann hafi að eigin sögn vitnað í gögn Sameinuðu þjóðanna. „Heimsendaspámenn taka því jafnan illa þegar bent er á að heimurinn sé ekki að versna alveg eins mikið og þeir halda fram,“ segir Sigmundur í færslu á Facebook síðu sinni.

Varaði við ofstæki í loftslagsmálum

Í stefnuræðu forsætisráðherra í gær ræddi Sig­mundur meðal annars fyrir­hugaðar að­gerðir ríkis­stjórnarinnar í loft­lags­málum. Sagði hann ríkis­stjórnina nálgast málin á kol­rangan hátt og full­yrti meðal annars að al­þjóða veðurfræðisstofnunin hefði varað við of­stæki í loft­lags­málum.

„Um leið og skað­legum að­gerðum er beitt í nafni um­hverfis­verndar er sótt að ís­lenskum land­búnaði úr öllum áttum. Ein besta leiðin til að takast á við um­hverfis­vá er að efla hina inn­lendu um­hverfis­vænu mat­væla­fram­leiðslu. Þess í stað er henni gert erfitt fyrir og opnað á inn­flutning á sýkla­lyfja­menguðu kjöti úr er­lendum verk­smiðju­búum.“

„Þegar loftslagsbreytingum er kennt um allar ófarir manna og ítrekað spáð yfirvofandi heimsendi er ekki líklegt að gripið verði til réttra aðgerða til að takast á við vandann í raun.“ Þá brýndi Sigmundur fyrir mikilvægi þess að taka á loftslagsmálum af skynsemi og grundvelli vísinda.

Vitnaði í þekktan svindlara

Í tilkynningu frá Náttúruverndarsamtökum Íslands var gefið til kynna að Sigmundur hefði vitnað í þekkta svindlara í ræðu sinni. „Þar vitnaði hann í Global Warming Policy Forum (GWPF), bresk samtök sem afneita vísindalegum niðurstöðum um loftslagsbreytingar,“ segja samtökin.

Þá gagnrýndu samtökin ummæli Sigmundar þess efnis að hvirfilbyljir hefðu ekki aukist vegna hamfarahlýnunar og vitnuðu þar í tilkynningu frá Veðurfræðisstofnun Sameinuðuð þjóðanna (WMO), frá því í byrjun mánaðar sem hélt öfugum staðreyndum fram.

Innihaldslaust tal

„Nýverið kom fram að litlar efasemdir eru meðal landsmanna um loftslagsbreytingar. Svo hefur verið í mörg ár. Þetta veit Sigmundur Davíð mæta vel og í stað þess að andæfa vísindunum beint vitnar hann í þekkta svindlara og hefur sig upp með innihaldslausu tali um nauðsyn þess „að beita vísindum og skynsemi.” Náttúruverndarsamtök Íslands vona innilega að þingmenn varist slíkan málflutning í umræðum um loftslagsvána, neyðarástand sem alþjóðasamfélagið stendur frammi fyrir,“ segir í tilkynningunni að lokum.

Vitnaði ekki í rugludalla

Sigmundur þvertekur fyrir ásakanirnar og segir enga röksemdafærslu vera fyrir þeim. „Því var haldið fram að ég hefði verið að vitna í einhvern félagsskap í Bretlandi sem væri skipaður einhvers konar rugludöllum. Þar af leiðandi væri þetta vitleysa.“ Sigmundur hafi hins vegar að eigin sögn verið að vitna í Sameinuðu þjóðirnar og gögn þeirra. Nefndi hann sérstaklega á nafn Björn Lomborg.

„Heimurinn er ekki að farast en úrlausnarefnin eru samt mörg og stór. Það á ekki hvað síst við um umhverfismálin. Við hljótum að vilja nálgast vandamálin með það að markmiði að finna bestu lausnirnar fremur en að nota þau sem efnivið sýndarstjórnmála.“