Sig­mundur Davíð Gunn­laugs­son, for­maður Mið­flokksins, var í við­tali hjá Sig­mundi Erni Rúnars­syni í Fréttavaktinni á Hringbraut í kvöld. Af nægu var að taka enda mikið gengið á hjá Sig­mundi Davíð síðan kosið var til Al­þingis.

Hann veltir upp spurningunni hvað Sjálf­stæðis­flokkurinn snúist raun­veru­lega um: „Eru þetta bara sam­tök á­huga­fólks um eigið þing­sæti? Sam­tök á­huga­fólks um mögu­legt ráð­herra­sæti? Frekar en ein­hverja stefnu? Sjálf­stæðis­flokkurinn hefur verið að þróast í þessa átt og af­saka það með því að hann sé svo breiður að skoðanir skipti ekki máli,“ segir Sig­mundur Davíð.

Hann segir flokkinn á vondri vegferð: „Mér finnst hann vera þróast yfir í það að vera inni­halds­laus kerfis­flokkur. Að því marki sem hann hefur inni­hald þá hefur það verið að færast mjög hratt til vinstri. Yfir í nýju vinstri-ný­aldar­pólitíkina, sem ég kalla sem svo, og fyrst og fremst bara það að langa að vera í ríkis­stjórn til að vera í ríkis­stjórn,“ segir Sig­mundur Davíð enn fremur um þróun Sjálf­stæðis­flokksins.

Fram­sókn farin langt til vinstri

Sig­mundur Davíð ræddi einnig um fyrrum flokk sinn, Framsóknarflokkinn, í Fréttavaktinni. Hann segir flokkinn hafa verið allt annars eðlis í formannstíð sinni: „Hann fór náttúru­lega mjög hart til vinstri í að­draganda kosninganna eins og bent hefur verið á. Fengu meira að segja fram­bjóð­endur frá Sam­fylkingu og öðrum vinstri flokkum á lista hjá sér og fóru mikið í slíkar á­herslur. Fram­sóknar­flokkurinn er orðinn eitt­hvað allt annað en hann var þegar ég var for­maður þar. Og Mið­flokkurinn auð­vitað miklu líkari Fram­sóknar­flokknum eins og hann var í minni tíð heldur en Fram­sóknar­flokknum eins og hann er núna.“

Þá hafi á­sýnd flokksins gjör­breyst: „Þau tóku upp á alls konar brellum, það hefði komið mér á ó­vart á sínum tíma ef Fram­sóknar­flokkurinn hefði haldið sam­kvæmi þar sem yfir­lýst klám­stjarna var fengin til að vera eld­gleypir. Þetta var flokkur sem var vanari karla­kórum og ein­hverjum slíkum at­riðum. En, þau fóru í það sem menn kalla á ensku að „rebranda“ sig.“

Það hafi þó ekki verið lykil­at­riðið á bak­við kosninga­sigur Fram­sóknar­flokksins: „Aðal­á­stæðan var þessi aug­lýsinga­stofa sem las tíðar­andann miklu betur en ég hafði gert mér grein fyrir, með þessu ó­trú­lega slag­orði: „Er ekki bara best að kjósa Fram­sókn?“ segir Sig­mundur Davíð and­varpandi og gefur til kynna þreytu­legt og á­huga­laust slag­orð.

Ríkisstjórnin gangi út á ráðherrastólana

Um áframhaldandi ríkisstjórnarsamstarf segir Sigmundur Davíð að allt stefni í endurtekningu frá síðasta kjörtímabili: „Auðvitað lítur allt út fyrir að þessi stjórn haldi áfram með þessum flokkum. Það koma einhverjar fréttir með að þau eigi í erfiðleikum með að ræða loftslagsmál, félagsmál og eitthvað slíkt. Þetta er væntanlega sett út fyrst og fremst fyrir flokksmennina, til þess að geta sýnt þeim að þeirra flokkur sé að passa upp á að það verði einhver breyting.“

Aðalatriðið sé að halda ráðherrastólunum: „Þetta gengur allt út á það, að því er virðist núna, að halda í ráðherrastóla. Sjáðu bara Sjálfstæðisflokkinn hvað hann var glaður með næst verstu útkomu sína í kosningum frá upphafi. Þau voru himinlifandi af því að hann sá fyrir sér: „Jæja, við getum þó allavega verið áfram í ríkisstjórn.“ Og VG, hvað misstu þau, þriðjung af fylgi sínu? Hæstánægð. Sáu fyrir sér að vera áfram í oddvitastöðu í ríkisstjórn. Pólitíkin er því miður farin að snúast allt of mikið út á það að menn séu í einhverjum embættum til þess að leika þar einhver hlutverk, frekar en að breyta landinu,“ segir Sigmundur Davíð.

Hann segir að ríkisstjórnarflokkarnir þrír séu keimlíkir: „Maður sér ekkert mikinn mun á þessum flokkum, pólitískt séð. Það mun birtast í stjórnarsamstarfinu núna. Þau leysa þessi mál sem hefur verið kastað fram sem „ágreiningsefnum“ með því að skipa einhverjar nefndir til þess að skoða þau, með því að leysa loftslagsmál með grænum fjárfestingum.“

Hann heldur áfram: „Þetta gengur allt út á yfirskriftina, umbúðirnar. Það verður talað um grænar fjárfestingar, þó að enginn muni vita hvað það þýðir nema það væntanlega þýðir eins og vanalega: aukin skattlagning á fátækara fólk til þess að greiða niður einhver ævintýri fyrirtækja eða kaup á dýrum bílum. Þetta mun snúast um umbúðir eins og það hefur gert fram að þessu. Þetta verður áfram kerfisstjórn, tiltöluleg ópólitísk kerfisstjórn í þeim skilningi að flokkarnir munu ekki leggja áherslu á sína sérstöku stefnu, en þau munu pakka þessu inn í einhverjar nýjar umbúðir. Innihaldið verður það sama,“ segir Sigmundur Davíð.