Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, furðar sig á algeru plastpokabanni sem tók gildi um áramótin og veltir því fyrir sér hvað fyrirtæki sem eigi birgðir af þeim eigi að gera við þær.
Sigmundur Davíð kallar eftir því að litið sé til heildarmyndar í umhverfismálum í færslu sem hann birtir á Facebook-síðu sinni í gær. Markmið lagasetningarinnar er, meðal annars, að draga úr plastmengun í hafi en Sigmundur Davíð dregur í efa að margir Íslendingar leggi það í vana sinn að henda pokunum í hafið. Svo séu þeir iðulega notaðir undir sorp sem komi í veg fyrir að það fjúki þangað.
Sigmundur Davíð segir frá því að hann hafi á sínum háskólaárum notað plastpoka sem skólatösku og hafi iðulega verið gert grín að honum. Hann hafi sem dæmi átt einn Hagkaupspoka sem nýttist honum í heilt ár.
„Ég notaði jafnan plastpoka sem skólatösku á háskólaárunum og var stundum hafður að háði og spotti fyrir vikið. Það var vegna þess að pokarnir þóttu hallærislegir, ekki vegna þess að ég væri grunaður um að ætla að henda þeim í sjóinn. En þeir voru praktískir. Venjulegur plastpoki úr verslun vegur um 5,5 grömm en getur hæglega borið meira en 10 kíló. Framleiðsla bómullarpoka losar hátt í 200 sinnum meira af gróðurhúsalofttegundum og þá er gert ráð fyrir að plastpokinn sé bara notaður einu sinni. Ég átti Hagkaupspoka sem nýttist mér í rúmlega ár,“ segir Sigmundur Davíð í færslunni sem má sjá hér að neðan. Þar má einnig sjá mynd af honum með plastpoka.
Nýja „frjálslyndið” heldur áfram. Nú er búið að banna plastpoka og fyrirtæki sem áttu birgðir af því sem fyrir áramót...
Posted by Sigmundur Davíð Gunnlaugsson on Monday, 4 January 2021
Allir plastpokar bannaðir
Frá og með 1. janúar á þessu ári tók gildi bann við afhendingu burðarpoka úr plasti, sama hvort um ræðir með eða án gjalds. Bannið á sem sé einungis við um plastpoka og ekki burðarpoka úr öðrum efnum.
Á vef stjórnarráðsins er fjallað ítarlega um bannið og þar segir að burðarpokar úr plasti séu bæði þykku pokarnir sem hægt hefur verið að fá eða kaupa í stykkjatali á afgreiðslukössum verslana og þunnu pokarnir sem til dæmis hefur verið hægt að fá endurgjaldslaust í grænmetiskælum matvörubúða.
Þar kemur einnig fram að bannið taki ekki til plastpoka sem eru söluvara í hillum í verslunum, svo sem nestispoka og ruslapoka sem seldir eru margir saman í rúllum.