Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, er einn tæplega þrjú þúsund Íslendinga sem greindust með Covid-19 í gær. Að hans sögn er hann óðum að hressast.

Þetta kemur fram í bréfi sem Sigmundur sendi flokksmeðlimum Miðflokksins sem má sjá hér fyrir neðan.

Kemur fram í bréfinu að þingmenn Miðflokksins hafi verið á leiðinni í ferðalag um landið að hitta flokksmenn og ræða stöðuna í aðdraganda sveitastjórnarkosninga.

Degi fyrir brottför hafi Sigmundur fundið fyrir einkennum kórónaveirusýkinga og fór því í skimun og fékk það staðfest að hann væri með Covid-19.

Sigmundur segist eiga von á því að losna úr einangrun um helgina og lofar því að fara í áður áætlað ferðalag sem fyrst.

Kæru félagar

Fyrir nokkru lögðum við drög að ferð okkar þingmanna um landið til að hitta flokksmenn og ræða stöðuna í stjórnmálunum og komandi sveitarstjórnarkosningar. M.a. stóð til að við yrðum á ferðinni alla þessa viku, kjördæmavikuna. Bergþór hafði afþakkað boð um að fara á vegum þingsins á fundi í Washington og New York til að komast í að hitta flokksmenn enda er það að okkar mati aðkallandi og mikilvægt tilhlökkunarefni.

Daginn áður en dagskrá ferðarinnar átti að hefjast var ég orðinn lasinn og reyndist svo vera kominn með covid.

Það var nokkurra daga bið eftir niðurstöðu frá Heilsugæslunni en niðrstaðan barst loks í nótt. Miðað við einkennin og jákvæð heimapróf var mér þó ljóst að ekki væri forsvaranlegt að fara út á meðal fólks í millitíðinni.

Þetta kom í framhaldi af því að ég hafði tvisvar farið í sóttkví vegna smits í fjölskyldunni og er því ákaflega bagalegt. Ég er þó óðum að hressast og losna væntanlega úr einangrun um helgina.

Við munum drífa okkur af stað um leið og færi gefst og nýta hvert tækifæri til að hitta flokksmenn. Það er margt að ræða og fjölmörg sóknarfæri bíða. Það hefur sjálfsagt ekki farið fram hjá ykkur að stjórnmálin virðast vera að vakna úr löngum dvala. Nú þurfum við að láta mikið til okkar taka á hinum ýmsu sviðum og það munum við gera.

Ég hlakka til að hitta ykkur og leggja á ráðin um framhaldið.

Kær kveðja, Sigmundur Davíð