Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir Brynjar Níelsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins, velkominn í Miðflokkinn. Brynjar sagði að hann myndi ekki þiggja sæti á lista Sjálfstæðisflokksins eftir að hann lenti í fimmta sæti í prófkjöri flokksins í Reykjavík síðustu helgi, Brynjar sóttist eftir öðru sæti.

Sigmundur Davíð ræddi möguleikann á að bjóða Brynjari yfir í Miðflokkinn í útvarpsþættinum Harmageddon í gær.

„Brynjar er ekki frjálshyggjumaður. Hann er frjálslyndur, hógvær íhaldsmaður. Og ætti vel heima í Miðflokknum, verandi maður sem þorir að hafa skoðanir á hlutum, það er orðið svo fátítt í pólitíkinni,“ sagði Sigmundur Davíð.

„Ég óttast að Brynjar sé orðinn svo andlega laskaður af upplifun sinni af þróun Sjálfstæðisflokksins að hann þurfi að komast í hvíld frá pólitíkinni.

Finnst illa farið með Brynjar

Sigmundur segir að hann hafi verið í, og sé í reglulegum samskiptum við Brynjar.

„Ég ræði oft við Brynjar. Við hittumst flesta daga niðri í þingi.“

Frosti Logason, þáttastjórnandi, spurði Sigmund hafi hann hafi rætt við Brynjar eftir prófkjörið.

„Ég hringdi í hann,“ sagði Sigmundur. „Mér fannst farið illa með hann hjá Sjálfstæðisflokknum. Ef þú ert að fiska eftir því hvort ég hafi boðið honum eitthvað sérstakt, þá raða ég ekki upp á lista. Ég hef margsinnis sagt honum að hann eigi frekar heima í Miðflokknum.“

Þurfi ekki lengur að kyngja ælunni

Sigmundur segir að Brynjar sé meira en velkominn. „Við viljum auðvitað fá Brynjar með okkur eins og annað gott fólk. Þó hann sé orðinn andlega þreyttur eins og hann hefur lýst þá myndi hann fljótt hressast og ná fyrri styrk ef hann gengi til liðs við okkur,“ sagði hann.

„Það besta fyrir hann gæti verið að ekki aðeins gæti hann haldið áfram að segja það sem honum finnst, hann gæti líka farið að greiða atkvæði í samræmi við það og hætt að kyngja ælunni eins og hann hefur sagt.“

Hér má hlusta á viðtalið við Sigmund Davíð.