Sig­mundur Davíð Gunn­laugs­son, for­maður Mið­flokksins, var tíð­rætt um kerfið og ríkis­báknið í ræðu sinni á flokks­ráðs­fundi flokksins sem fram fór í Reykja­nes­bæ í dag. Þar sagði hann meðal annars lýð­ræðið í hættu, því kerfið væri það sem ræður.

„Vandinn sem við stöndum nú frammi fyrir hér á landi og víðar er að lýð­ræðið er hætt að virka sem skildi. Kerfið ræður,“ sagði Sig­mundur Davíð meðal annars í ræðunni. Hann tók fram að hann væri ekki að setja út á em­bættis­menn al­mennt.

„En hlut­verk kerfisins á að vera að þjónusta al­menning, ráð­leggja stjórn­mála­mönnum og fram­fylgja lýð­ræðis­legum á­kvörðunum. Ekki að stjórna. Ekki að hafa vald án lýð­ræðis­legrar á­byrgðar.“

Líkt og Frétta­blaðið hefur greint frá hefur flokkurinn meðal annars óskað eftir reynslu­sögum fólks, sem hafi þurft að takast á við kerfið. Með því að safna saman sögunum segir Mið­­flokkurinn í aug­­lýsingu sinni að hægt sé að greina vandann og þannig verði þau betur í stakk búin til að leysa hann.

Skaut föstum skotum að ríkis­stjórninni

Sig­mundur hóf ræðu sína á því að skjóta föstum skotum að ríkis­stjórninni, líkt og hann hefur gert áður. Hann sagði að alltaf væri skemmti­legra að tala um á­herslur og lausnir eigin flokks en það sem aðrir væru að gera vit­laust.

„Sam­hengisins vegna kemst ég þó ekki hjá því að segja nokkur orð um ríkis­stjórnina og það stjórnar­far sem við búum við. Stjórnar­farið sem tekist verður á um í næstu kosningum. Ætli sé ekki best að ljúka því bara af strax í upp­hafi ræðunnar,“ sagði Sig­mundur.

Hann segir að það hafi legið fyrir frá upp­hafi að ríkis­stjórnin yrði kerfis­stjórn. Fátt væri meðal annars við stefnu­mál stjórnarinnar sem gæfu til kynna að Sjálf­stæðis­flokkurinn væri stærstur stjórnar­flokkanna.

„Það er nokkuð um liðið síðan ég fór að velta fyr­ir mér hvaða mun­ur væru á stefnu og orð­ræðu Sjálf­­stæðis­­flokks­ins nú og á­hersl­um Sam­­fylk­ing­ar­inn­ar sirka 2007. Ég hef ekki enn fundið þenn­an mun en ég held á­fram að leita.“

Framsókn snúist gegn eigin stefnumálum

Þess næst sagði hann Vinstri græna nálgast stjórnar­sam­starfið á annan hátt. „Ráð­herrar þeirra virðast hafa frítt spil til að inn­leiða eigin á­huga­mál. Hvort sem það er inn­leiðing á marxísku heil­brigðis­kerfi eða til­raunir til að koma í veg fyrir fram­kvæmdir á Ís­landi og auð­vitað alveg sér­stak­lega á Vest­fjörðum þar sem enginn má gera neitt.

For­sætis­ráð­herrann fær hinn stjórnar­flokkinn líka til að sam­þykkja sín sér­stöku á­huga­mál, til dæmis með lögum um fóstur­eyðingar sem myndu teljast rót­tæk í Hollandi þótt lög­gjöfin hafi ekki gengið eins langt og for­sætis­ráð­herrann hefði viljað. Vinstri græn fá meira að segja að endur­skipu­leggja ráð­herra­lið Sjálf­stæðis­flokksins.“

Þá vék Sig­mundur sér að Fram­sókn og sagði flokkinn hafa snúist gegn eigin stefnu­málum. Hann segir flokkinn hafa þróast ná­kvæm­lega eins og hann hafi óttast á haust­mánuðum 2017, „þar sem við­skipta­módel flokksins snúist um að ráðst í mikla og dýra kosninga­her­ferð fyrir hverjar kosningar með það að mark­miði að ná nógu mörgum inn til að komast í ríkis­stjórn til að komast í ríkis­stjórn með hverjum sem er um hvað sem er."

Land­búnaður ekki hluti af bákninu

Þá í­trekaði Sig­mundur mikil­vægi þess að staðið væri með helstu at­vinnu­greinum þjóðarinnar og vék Sig­mundur sér þá að ís­lenska land­búnaðinum.

„Á síðustu misserum hefur verið sótt að ís­lenskum land­búnaði úr að minnsta kosti þremur áttum. Greinin hefur þá sér­stöðu að bændur eru eina stéttin sem stjórn­völd stefna að því að fái lækkandi tekjur á næstu árum. Hvergi annars staðar gera stjórn­völd ráð fyrir að greiða jafnt og þétt minna fyrir keypta þjónustu,“ sagði Sig­mundur.

Hann segir ný­legan tolla­samning hafa reynst afar skað­legan fyrir greinina. „Loks hefur verið á­kveðið að heimila inn­flutning á ó­frystum og ó­geril­sneiddum mat­vælum í sam­keppni við ís­lenska bændur sem á sama tíma þurfa að upp­fylla strangari kröfur kerfisins en nánast alls staðar annars staðar í heiminum.“

Þá segir hann það bætast við að hópar fólks, jafn­vel heill flokkur í ríkis­stjórn, beiti sér gegn neyslu mat­væla sem ís­lenskir bændur fram­leiða.

„Þegar Vinstri hreyfingin grænt fram­boð á­kvað að banna pappír og kjöt á fundi sínum hafði ég dá­litlar á­hyggjur af finnskum skógar­bændum en þó mun meiri á­hyggjur af bændunum sem hafa haldið uppi byggð á Ís­landi frá land­námi.

Land­búnaður er al­deilis ekki hluti af bákninu. Hann skilar þjóðar­búinu gríðar­legum gjald­eyris­sparnaði, skilar okkur auknum lífs­gæðum og er undir­staða fjöl­breyttrar starf­semi um allt land.“