Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, er ekki á leiðinni í annan flokk eða á aðra framabraut. Hann segir Miðflokkinn ekki vera að deyja út og bendir á að trúlega verði innihald ríkisstjórnarinnar það saman en pakkað inn í nýjar umbúðir.
Sigmundur kom á Fréttavaktina á Hringbraut í gær og ræddi þar ýmis mál, þar á meðal brotthvarf Birgis Þórarinssonar yfir í Sjálfstæðisflokkinn. „Þetta kom náttúrulega gríðarlega á óvart. Þetta hefur aldrei gerst áður að þingmaður – strax eftir kosningar, áður en þing hefur verið sett, áður en búið er að staðfesta kjörbréf – skipti um flokk,“ sagði Sigmundur.
Hann bendir á að það sé mjög sérstakt að fylgjast með umræðum hjá Sjálfstæðisfólki eftir skiptin, sérstaklega þegar það sé spurt hvernig Birgir passi í þingflokkinn. „Sjálfstæðisflokkurinn er breiður flokkur, alls konar fólk getur verið þarna. Bryndís Haraldsdóttir og Birgir Þórarinsson og alls konar fólk.
Þá veltir maður fyrir sér, um hvað snýst Sjálfstæðisflokkurinn? Eru þetta bara samtök áhugafólks um eigin þingsæti? Samtök áhugafólks um mögulegt ráðherrasæti? Frekar en einhverja stefnu? En Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið að þróast í þessa átt og afsaka það með því að hann sé svo breiður að skoðanir skipti ekki máli.“
Þá bendir hann á að pólitíkin sé orðin þannig að hún snúist um að halda í ráðherrastóla. „Sjáðu bara Sjálfstæðisflokkinn hvað hann var glaður með næstverstu útkomu sína í kosningum frá upphafi. Þau voru himinlifandi af því að hann sá fyrir sér: Jæja, við getum þó allavega verið áfram í ríkisstjórn.
Og VG, hvað misstu þau, þriðjung af fylgi sínu? Hæstánægð. Sáu fyrir sér að vera áfram í oddvitastöðu í ríkisstjórn. Pólitíkin er því miður farin að snúast allt of mikið um það að menn séu í einhverjum embættum til þess að leika þar einhver hlutverk, frekar en að breyta landinu.“
Viðtalið við Sigmund má sjá í Fréttavaktinni sem er á dagskrá Hringbrautar alla virka daga klukkan 18.30.