Fullyrðingar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, um að orðbragð á borð við það sem viðgekkst á Klaustri, sé algengt í þingheiminum brutu ekki gegn siðareglum Alþingis. Þetta er mat Steinunnar Þóru Árnadóttur og Haralds Benediktssonar, 7. og 8. varaforseta Alþingis, en erindi um meint brot Sigmundar bárust forsætisnefnd í byrjun janúar.

Grófara orðbragð viðgengist

Sigmundur Davíð ræddi við fréttamenn RÚV þann 3. desember síðastliðinn í kjölfar umfjöllunar um Klaustursupptökurnar. Í viðtalinu sagði Sigmundur meðal annars að í stjórnmálum hafi orðræða á borð við þá sem haldið var á lofti á Klausturbar, viðgengist almennt í þingheiminum. „Ýmsir samstarfsmenn mínir hér hafa sagt enn þá ljótari um mig opinberlega en ég sagði við nokkurn mann í þessum samtölum,“ sagði Sigmundur meðal annars. Þá sagði hann að alvarleiki málsins fælist í því að stjórnmálamenn hafi setið undir slíkum samræðum. „Ja, alvarleiki málsins er sá að menn skuli í stjórnmálunum, ja frá því ég byrjaði, hafa, og ég undanskil mig svo sannarlega ekki, setið undir svona umræðum, hlustað á þær, ýtt undir þær," sagði Sigmundur og var í kjölfarið spurður hvort það væri ekki skylda hans að nafngreina slíka þingmenn.

„Er það núna orðin skylda mín að rekja það hvað tilteknir þingmenn hafa sagt um aðra þingmenn, sem sumt hvert, því miður, er jafnvel töluvert grófara en það sem við höfum heyrt á þessum upptökum.“

Ummæli Sigmundar, sem og önnur viðlíka, voru gagnrýnd af ýmsum þingmönnum og sagði Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, meðal annars að ekkert eðlilegt hafi verið við samtal sexmenninganna á Klausturbar.

Ummælin andsvör

Í niðurstöðu forsætisnefndar kemur fram að í ummælum þingmannsins hafi falist staðhæfingar um atvik, sem hann fullyrti að hefðu verið sambærileg þeim sem fjölmiðlar hefðu með ítarlegum hætti fjallað um í hljóðupptökum.

„Líta verður til þess að ummælin fólki í sér andsvör hans við þeirri umfjöllun. Þegar það er virt og við hvaða aðstæður þau voru látin falla er ekki unnt að fullyrða að háttsemi þingmannsins hafi verið andstætt háttsernisskyldum hans,“ segir í niðurstöðunni.

Siðareglur fyrir alþingismenn hafa meðal annars þann tilgang að efla ábyrgðarskyldu alþingismanna, svo og tiltrú og traust almennings á Alþingi. Siðareglunum er ætlað að standa vörð um siðferðisleg verðmæti og hvetja þingmenn til góðra reglna.