Sigmundur Davíð Gunnlaugsson gagnrýnir ákvörðun kennara Verzlunarskólans að setja mynd af honum við hlið Adolfs Hitler og Benító Mússólíní í kennslustund sinni. Þetta gerir hann í nýrri færslu á Facebook síðu sinni í kvöld.

„Foreldrar víða um lönd hafa áhyggjur af því sem börnum þeirra er kennt í skólum nú til dags. Það er ekki alltaf að ástæðulausu. Sums staðar hefur pólitískur áróður kennaranna tekið við af fræðslu,“ segir Sigmundur í upphafi færslu sinnar en Sigmundur telur að huga megi að slíkri þróun hér á landi í ljósi þess hvernig honum var stillt upp í umtalaðri kennslustund.

Á myndinni sem fylgir færslu Sigmundar Davíðs má sjá fyrirsögnina „Nokkrir merkir þjóðernissinnar“ og eru þar einræðisherrarnir fyrst birtir og svo Sigmundur Davíð látinn fylgja með.

Sigmundur telur að margt megi athuga við bæði myndirnar og fyrirsögnina en hann telur að hvorki Hitler né Mússólíni hafi gert nokkuð sem talist gæti til þess að vera „merkir“ einstaklingar.

Hann telur að mestu mætti flokka þá sem markverða „en engu að síður ómerkilega, enda stjórnarfar þeirra einhvert óhugnanlegasta dæmi um öfgar í mannkynssögunni (ásamt nokkrum leiðtogum kommúnistastjórna),“ segir hann.

Ekki kemur fram í færslu Sigmundar Davíðs hver umræddur kennari er en hann telur að sér vegið með athæfinu.

„Ég veit ekki hvort óþverrabragð kennarans við Verzlunarskólann stafar eingöngu að löngun til að afvegaleiða nemendur pólitískt eða hvort hann var sjálfur afvegaleiddur á yngri árum og veit bara ekki betur,“ segir Sigmundur Davíð.

Færslu Sigmundar Davíðs má sjá í heild sinni hér fyrir neðan.