Þingmenn Viðreisnar vilja að ráðherra jafni samkeppnisstöðu fjölmiðla á íslenskum markaði.

Sigmar Guðmundsson þingmaður og fyrrverandi blaðamaður er fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögu um heildarendurskoðun rekstrarumhverfis fjölmiðla.

Lagt er til að Alþingi feli Lilju D. Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, að skipa starfshóp skipaðan fulltrúum fjölmiðlanefndar, Blaðamannafélags Íslands, hagfræðideildar Háskóla Íslands, fjármála- og efnahagsráðuneytis og menningar- og viðskiptaráðuneytis.

Viðreisn vill að starfshópurinn kanni rekstrarumhverfi miðla á Íslandi miðað við önnur norræn ríki, kanni hagræn áhrif þess að takmarka umsvif RÚV á auglýsingamarkaði og hvernig best sé að haga skattlagningu erlendra efnisveitna og samfélagsmiðla til samræmis við íslensk skattalög.

Flokkurinn segir nauðsynlegt að kalla eftir heildstæðri endurskoðun í staðinn fyrir að skoða sjálfstæða þætti. „Fjölmiðlar starfa á einum samhangandi markaði,“ segir í greinargerðinni. Þar benda þingmenn á að Ísland hafi fallið jafnt og þétt niður lista samtakanna Blaðamenn án landamæra um fjölmiðlafrelsi á meðan rekstrarumhverfið tekur breytingum.

„Ekki fer á milli mála að einkareknir fjölmiðlar standa höllum fæti. Rekstrarlíkan áskriftarmiðla, eins og var ríkjandi fyrir tíma internetsins, virðist ekki ganga upp lengur og fjölmiðlar hafa þurft að aðlaga sig mjög á skömmum tíma.“