Sigmar Guðmundsson, fjölmiðlamaður, skipar annað sæti á lista Viðreisnar í Suðvesturkjördæmi. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður flokksins, mun skipa fyrsta sæti listans.

Sigmar hefur starfað í fjölmiðlum undanfarin þrjátíu ár, sem útvarpsmaður á X-inu, þáttastjórnandi í Kastljósi og síðast sem þáttastjórnandi á Rás 2. Hann stígur nú inn á hið pólitíska svið í fyrsta sinn.

Hann segir í samtali við Fréttablaðið að hann sé búinn að segja upp á RÚV. „Ég sagði upp í gær og um leið hætt allri dagskrárgerð,“ segir hann.

„Það er mjög erfitt að kveðja þennan frábæra vinnustað sem ég unnið á í næstum aldarfjórðung.“

Hann segir skoðanir sínar fara vel saman við stefnu Viðreisnar. „Hugsjónir mínar eru nokkuð samhljóma Viðreisn og hafa alltaf verið. Ég lít á mig sem mjög frjálslyndan mann og hef lengi verið þeirrar skoðunar að það þurfi að stokka upp í gjaldmiðlamálum, ég held að krónan sé mikill dragbítur á alls konar framfarir bæði hjá fyrirtækjum og einstaklingum. Svo er mikið frjálslyndi í störfum Viðreisnar og þeirra kjörnu fulltrúm sem heilla mig mikið.“

Sigmar telur að hann geti miðlað reynslu sinni um réttindi blaðamanna í stjórnmálunum. „Ef það er eitthvað sem stendur hjarta okkar nærri þá er það tjáningarfrelsið og það að blaðamenn geti ýtt undir umræðu með því að starfa í alvöru umhverfi. Ég held að atburðir síðustu vikna sýni að það er býsna mikilvægt.“

Framboðslisti Viðreisnar í Suðvesturkördæmi:

1. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. Hafnarfjörður
2. Sigmar Guðmundsson fjölmiðlamaður. Garðabær
3. Elín Anna Gísladóttir verkfræðingur. Mosfellsbær
4. Thomas Möller, verkfræðingur og ráðgjafi. Garðabær
5. Ástrós Rut Sigurðardóttir þjónustufulltrúi. Hafnarfjörður
6. Rafn Helgason, umhverfis- og auðlindafræðingur. Garðabær
7. Ásta Sóllilja Sigurbjörnsdóttir lögmaður. Kópavogur
8. Jón Ingi Hákonarson bæjarfulltrúi. Hafnarfjörður
9. Sigrún Jónsdóttir flugfreyja. Hafnarfjörður
10. Guðlaugur Kristmundsson þjálfari. Garðabær
11. Kristín Pétursdóttir, sjálfstætt starfandi ráðgjafi. Hafnarfjörður
12. Ívar Lilliendahl læknir. Mosfellsbær
13. Kristjana Þorbjörg Jónsdóttir sölufulltrúi. Hafnarfjörður
14. Hermundur Sigurðsson raffræðingur. Hafnarfjörður
15. Soumia I Georgsdóttir framkvæmdastjóri. Kópavogur
16. Þórólfur Heiðar Þorsteinsson lögmaður. Kópavogur
17. Sigríður Sía Þórðardóttir forstöðumaður. Kópavogur
18. Jón Gunnarsson háskólanemi. Garðabær
19. Auðbjörg Ólafsdóttir, yfirmaður samskipta. Hafnarfjörður
20. Páll Árni Jónsson stjórnarformaður. Seltjarnarnes
21. Steinunn Ása Þorvaldsdóttir dagskrárgerðarkona. Reykjavík
22. Magnús Ingibergsson húsasmíðameistari. Mosfellsbær
23. Þórey S Þórisdóttir doktorsnemi. Hafnarfjörður
24. Eyþór Eðvarðsson ráðgjafi. Álftanes
25. Theodóra S Þorsteinsdóttir, fyrrverandi alþingismaður. Kópavogur
26. Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi ráðherra. Reykjavík