Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, greinir frá því í samtali við Mbl að líklegast muni hann sitja hjá við atkvæðagreiðslu um tillögur undirbúningsnefndar kjörbréfanefndar á fimmtudag.
Kosið verður á milli þess að láta seinni talninguna í Norðvesturkjördæmi gilda, eða ekki sem hefur þá í för með sér að kosið verði aftur í kjördæminu.
Flokksbróðir hans, Guðbrandur Einarsson, hefur nú þegar greint frá því í samtali við RÚV að hann muni greiða atkvæði með seinni talningunni. Guðbrandur tók sæti á Alþingi í kjölfar seinni talningarinnar á kostnað Guðmundar Gunnarssonar, oddvita Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi.

Í samtali við Mbl segir Sigmar þetta um ákvörðun sína: „Ég hallast að því að ég muni sitja hjá, því þetta getur haft bein áhrif á mitt þingsæti, en ég vil hins vegar sjá rökstuðning nefndarinnar fyrir kostunum áður en ég met þetta,“ segir Sigmar en uppkosning getur haft þau áhrif að hann missi þingsæti sitt.
Sigmar hefur þó ákveðinn fyrirvara á svari sínu og segist vilja sjá greinargerð undirbúningsnefndarinnar áður en hann ákveður sig.