Skipa­siglingar eru hafnar aftur í Súes­skurði eftir að tókst að losa 400 metra gáma­skipið Ever Given í gær sem hafði setið fast þar í tæpa viku.

Búist er við því að 113 skip sigli um skipa­skurðinn í dag en málið hefur valdið gífur­legum töfum á skipa­flutningum og tafirnar hafa kostað hagkerfi heimsins milljarða. Enn bíða hundruð skipa eftir því að sigla um skurðinn.

Osama Rabie, yfirmaður hafnaryfirvalda í Súesskurði á blaðamannafundi í gær.
Fréttablaðið/Getty

Munu vinna dag og nótt að því að losa stífluna

Osama Rabie, yfir­maður hjá hafnar­yfir­völdum Súes­skurðar, sagðist í sam­tali við frétta­stofuna Reu­ters búast við því að um­ferð um skurðinn myndi komast í rétt horf innan fjögurra daga og þá yrði hægt að hleypa þeim 422 skipum í gegnum skurðinn sem tafist hafa vegna málsins.

„Við munum vinna dag og nótt að því að losa um stífluna,“ segir Rabie.

E­ver­green skipa­fé­lagið sem er eig­andi skipsins sagði að skipið yrði tekið til skoðunar í Great Bitter Lake, sem að­skilur tvo hluta Súes­skurðar.

Rabie segir skipið vera sjó­fært til tak­markaðrar siglingar og segir hann ekki einn einasta gám hafa skemmst en ná­kvæmari skoðanir muni leiða í ljós hvort ein­hverjar skemmdir hafi orðið á skipinu.

Hollenska fyrir­tækið Smit Salva­ge vann að losun skipsins en sam­kvæmt þeim þurfti að moka um 30.000 fer­metrum af sandi og nota um ellefu dráttar­báta og tvö dráttar­skip til að losa Ever Given, sem vegur um 220.000 tonn og er eitt stærsta flutninga­skip heims.