Íslenskir hótelgestir sem pantað hafa gistingu hér á landi á erlendum bókunarsíðum þurfa gjarnan að greiða fyrir næturvistina með evrum í stað íslenskra króna.
Sighvatur Björgvinsson, fyrrverandi ráðherra og formaður Alþýðuflokksins, telur þetta vera undarlegan máta, en hann var á ferð um Vestfirði um helgina með eiginkonu sinni, Björk Melax, og var krafinn um greiðslu í evrum fyrir næturgreiðann á Fosshóteli Vestfjörðum á Patreksfirði.
„Gistingin kostaði okkur hjónin tæpar fimmtíu þúsund krónur og látum það nú vera, við vissum að íslensk hótel eru hátt verðlögð á þessum árstíma, en ég undraðist það nokkuð að þurfa að greiða gistinguna fyrir fram – og enn meira þegar ég var krafinn um evrur til að greiða fyrir hana,“ segir Sighvatur.
Forsvarsmenn Íslandshótela sem reka Fosshótel hringinn í kringum landið segja að svona sé í pottinn búið þegar ferðamenn panti gistingu á erlendum bókunarsíðum á borð við booking.com, en þar séu verð að jafnaði gefin upp í evrum, velji þeir ekki sérstaklega innlenda gjaldmiðilinn.
„Ég pantaði gistinguna vissulega á booking.com, en ég pantaði hana ekki í evrum,“ segir Sighvatur og undrast það stórum að íslensk hótel geti ekki tekið við íslenskum gjaldmiðli, þótt ferðamenn panti gistinguna rafrænt. „Þetta eru bara reglur, sagði starfsmaðurinn í afgreiðslunni og þar við sat,“ bætir hann við.
„Ég er nú Evrópusinnaður maður, en þetta finnst mér full langt gengið,“ segir Sighvatur Björgvinsson sem var kominn ásamt konu sinni í Ísafjarðardjúpið þegar Fréttablaðið náði tali af honum og lét hann vel af veðri og ferðinni að öðru leyti.