„Í fyrsta lagi þá er veturinn að byrja að minna á sig, eftir mjög gott haust. Dagurinn í dag er yndis­legur, en það kemur lægð upp að landinu, með suð­læga átt í nótt og í fyrra­málið,“ segir Sigurður Þ. Ragnars­son, betur þekktur sem Siggi Stormur, um ­veðrið næstu daga. Spáð er aftakaveðri á sunnudag, sérstaklega á norðanverðu landinu, og eru gular og appelsínugular viðvaranir áberandi um nær allt land.

„Þetta er ein af þessum rudda­lægðum. Hún fær allt sem hún þarf að fá til að verða það, bæði hlýtt og kalt loft sem að takast á hér við landið. Það verða alveg fár­viðris hviður í þessu,“ segir Siggi og bendir á að við gætum séð vind­hviður allt frá 50 metrum á sekúndu sums staðar á landinu.

„Það verða 40 metrar á sekúndu í námunda við fjöll í suður- og suð­austur­landi síð­degis, eða þegar líður á sunnu­daginn, en víða mjög hvasst. Við gætum verið að sjá ofsa­veður víða um land, en spárnar eru ekki alveg eins eftir því hvaða spá þú skoðar. En engu að síður eru þær allar sam­mála um að vonsku­veður er í að­sigi, með snjó­komu með öllu norðan­verðu landinu þegar líður á sunnu­daginn. Við erum að tala um skaf­renning og slæmt skyggni og það verður mikil snjó­koma fyrir norðan, en hún nær ekki að verða að neinu syðra á landinu. Kaldasti parturinn er á Húsa­vík og vestur eftir landinu norðan­verðu og þar er mesta snjó­komu­hættan,“ segir Sigurður.

Hann segir að það verði lík­lega rok og rigning á laugar­dag, en lægðin kemur svo skarpt inn á sunnu­dags­morgun. Honum finnst lík­legt að við sjáum rauða við­vörun sums staðar á sunnu­dag.

„Þá byrjar ballið fyrir norðan. Ein­kunnin sem ég gef þessu er ekki góð. Það eru horfur á ofsa­veðri, með mikilli ofan­komu á norðan­verðu landinu og fyrir norð­austan. En grunnurinn í þessu er norðan­átt, á norðan- og vestan­verðu landinu. Svo færist þetta kerfi til austurs og vindurinn verður síð­degis á sunnu­dag, þá kæmi mér ekki á ó­vart þó að það birtist rauð við­vörun fyrir suð­austur landið. Síð­degis á sunnu­dag við Vatna­jökul eru 40-50 metrar á sekúndu og þá erum við að tala um snældu­vit­laust veður,“ segir Siggi.

Er veturinn kominn?

„Við erum að tala um al­vöru vetrar­veður, hann virðist vera byrja með stæl. En svo eru góð hlýindi í þessu ein­staka daga næstu tíu, tólf daga. Þannig þetta er ekki alveg von­laust. Maður myndi samt helst ekkert vilja vera á ferðinni, ég kalla þetta kakóveður, fólk ætti bara að vera inni og fá sér kakó,“ segir Siggi.