„Veðrið þessa helgina verður einna sól­ríkast á Suður- og Vestur­landi. Hins vegar verða næstu dagar nokkuð vinda­samir og fremur svalir. Mildast verður þó syðst á landinu,“ segir Sigurður Þ. Ragnars­son veður­fræðingur, betur þekktur sem Siggi Stormur, um helgar­veðrið.

„Spárnar hafa verið nokkuð stöðugar þessa vikuna og benda til að það verði víðast bjart veður á sunnan- og vestan­verðu landinu um helgina, annars lítils háttar væta, einkum fyrir norðan. Það sem skyggir á gleðina yfir þessu bjarta veðri er að það verður næðingur af norðri og því svalt,“ segir Sigurður og býst við fimm til átta stiga hita fyrir norðan.

„En í hnjúka­þeys­á­hrifum syðra má búast við að hitinn skrölti þetta upp undir 15 stig á laugar­deginum. Sunnu­dagurinn er hins vegar að koma inn sem fremur þung­búinn og með vætu en framan af sunnu­degi ætti hann að ná að verða nokkuð bjartur suð­vestan­lands með hita að 12-13 stigum.“

Sigurður segir að kalt loft sé yfir landinu og til marks um það mældist frost í byggð á Ísa­firði í nótt.

„Það var reyndar ekki nema 0,1 gráða undir frost­marki, en það sýnir hve svalur loft­massinn sem er yfir landinu. Hlýrra loft er ekki alveg í aug­sýn,“ segir hann að lokum en hér að neðan má yfir­lit yfir veðrið um helgina á landinu öllu.