Sigurður Þ. Ragnars­son veður­fræðingur, betur þekktur sem Siggi Stormur, segir að lands­menn eigi von á góðu veðri – hálf­gerðu sumar­veðri – næstu dagana og jafn­vel vikurnar.

„Það er margt mjög merki­legt og spennandi að sjá í veðrinu næstu vikur, já ég segi vikur. Það liggur við að mig langi að segja, að morgun­deginum slepptum, að loksins sé að koma sumar – lang­þráð,“ segir Sigurður í sam­tali við Frétta­blaðið.

Hlýtt loft í háloftunum

Ef undan er skilin lang­þráð hita­bylgja fyrir norðan í vikunni hefur veðrið ekki verið upp á marga fiska víða á landinu í sumar. Það er að breytast og er út­lit fyrir góð hlýindi og hæg­lætis­veður fyrri part mánaðarins.

„Núna er að byggjast upp á­kaf­lega hlýtt loft í há­loftunum, ekki síður norðan megin við landið, við austur­strönd Græn­lands. Þetta eru hlýindi sem maður sér ekkert oft á þessum árs­tíma. Þá er enn fremur að byggjast upp hæðar­hryggur yfir landinu þvert yfir At­lants­hafið sem mun, gangi þetta allt eftir, ýta öllum lægðum langt suður fyrir land. Þetta í sam­einingu fram­kallar góð hlýindi, hæg­viðri og þurrka­tíð á öllu landinu sem gæti alveg staðið fram undir miðjan mánuð og kannski lengur,“ segir Sigurður.

Engin hitamet en góð hlýindi

Hann segir rétt að geta þess að þegar svona hlýtt loft kemur sér fyrir í há­loftunum þurfi vind til að koma hlýindum niður til yfir­borðsins.

„Þessi vindur er ekki í spánum þannig að við erum kannski ekki að tala um ein­hver hita­met en engu að síður mjög góð hlýindi. Þá má nefna að þegar svona þrýsti­flat­neskja er yfir landinu þá getur verið dá­lítið erfitt að meta skýja­spárnar, ekki síst ef haf­golan gerir sig gildandi,“ segir Sigurður en veðrið fer strax að batna um helgina, eftir morgun­daginn senni­lega.

„Ég er alla­vega himin­lifandi yfir að sjá þennan sumar­auka og já, líka á höfuð­borgar­svæðinu. Við erum í raun að tala um allt landið í sælu­tíð gróft séð í tvær vikur, gangi þetta nú allt eftir. Svo lengir þetta berjatínslu­tímann og sveppa­tínsluna, getur jafn­vel lengt upp­skeru­tímann í kar­töflu­görðunum,“ segir Sigurður að lokum.

Svona eru horfurnar næstu daga: