Sigurður Þ. Ragnars­son, betur þekktur sem Siggi Stormur, segir að von sé á miklum hlýindum norðan- og austan­lands á morgun. Eru tölu­verðar líkur á því að hæstu hita­tölur sumarsins sjáist þá.

Hæsti hitinn á morgun verður við og í kringum Ás­byrgi þar sem von er á allt að 25 stiga hita. Í sam­tali við Frétta­blaðið segir Sigurður að ein­staka spár reikni sig upp í 26 stig. Það verður einnig hlýtt á Akur­eyri og segir Sigurður að hitinn þar fari mögu­lega í 22 gráður. Al­mennt verður hitinn norð­austan­lands á bilinu 20-25 stig að deginum í sól en nokkrum vindi.

Sigurður segist bíða spenntur eftir því hvort hæstu hita­tölur sumarsins sjáist ekki á morgun.

„Þó toppurinn sé á morgun og heldur halli undan fæti á mið­viku­dag þá er meira í poka­horninu snemma í septem­ber, jafn­vel enn hærri tölur en þetta. Það á því vel við hér orða­til­tækið: Þetta er ekki búið fyrr en það er búið, því septem­ber telst til sumar­mánaða hér á landi. Sá hlær best sem síðast hlær.“

Því miður fyrir íbúa annarra lands­hluta verður þessi bongó­blíða að­eins fyrir norðan og austan á morgun. Sigurður segir að búast megi við 13 til 18 metrum á sekúndu sunnan og vestan til og á mið-há­lendinu, annars 5-13 metrar á sekúndu. Þegar líður á daginn verður tals­verð rigning á sunnan- og vestan­verðu landinu og hiti þar á bilinu 11 til 18 stig.