„Besta veðrið á morgun verður á austanverðu landinu, frá Hornafirði og upp á Hérað. Þar eru horfur á nokkuð björtu og þurru veðri með sæmilega hægum vindi,“ segir Sigurður Þ. Ragnarsson, betur þekktur sem Siggi Stormur.
Sigurður gerir ráð fyrir nokkuð stífum vindi á vestanverðu landinu á morgun, 8 til 15 metrum á sekúndu á að giska, en fyrir austan verður með bjart með köflum og hiti að 13 stigum.
„Vestan til á landinu verður hvassara og myndarlegar hviður geta myndast á sunnanverðu Snæfellsnesi og á sunnanverðum Vestfjörðum. Rétt að hafa það í huga fyrir fólk með ferðavagna,“ segir Sigurður og bætir við að veðrið verði kaflaskipt um helgina. Það verður nokkuð bærilegt fyrir íbúa á sunnan- og vestanverðu landinu en heldur svalara fyrir íbúa í öðrum landshlutum.
„Síðan er að sjá áframhaldandi norðlægar áttir með björtu veðri sunnan og vestan til frá föstudegi og yfir helgina með hita að 14 stigum þar um slóðir. Heldur kuldalegt verður fyrir norðan og raunar frost sums staðar á fjöllum. Það lægir heldur á landinu um helgina en nokkuð vindasamt á föstudag.“
