„Maður hefur vissulega séð hann fallegri, þjóðhátíðardaginn,“ segir veðurfræðingurinn Sigurður Þórður Ragnarsson, betur þekktur sem Siggi Stormur, um veðurspána fyrir föstudaginn 17. júní.

Sigurður segir að það stefni í meira vatnsveður en núna dagan á undan.„Það verður hægt að sleppa því að vökva blóminn þennan daginn,“

Þá segir hann að lægðin sem stýri landinu fái liðsauka, og vindur gæti fylgt í kjölfarið, þó óljóst sé hversu mikill hann sé. Spáin er frekar blaut og leiðinleg um allt land.

„Ef ég þyrfti að gefa þessu einkunn frá einum til fimm fengi þetta einn,“ segir Siggi og bætir við að spáin sé í takt við fræga mýtu. „Þetta er ekki alveg eins og maður vonast eftir, en þjóðsagan segir að það sé oft rigning sautjánda júní. Og það er svolítið til í því. Það rignir oft þennan dag.“

Biðlar til fólks að fylgjast með spánni

Eflaust höfðu margir hugsað sér að ferðast næstu helgi, enda föstudagurinn frídagur. En líkt og kemur fram hér að ofan er veðurspáin ekkert gríðarlega spennandi fyrir þjóðhátíðardaginn. Þó lítur laugardagurinn talsvert betur út, en þá á að vera sólríkt í flestum landshlutum.

Blaðamaður stakk því upp á við Sigga að fólk myndi nota föstudaginn í að ferðast, njóta laugardagsins og ferðast síðan heim á sunnudag sem virðist ætla að vera blautur. Sigurður telur það ágætis hugmynd, en biðlar til fólks sem er í slíkum hugleiðingum að skoða veðurspána á fimmtudag og líta eftir vindinum. Þessum skilaboðum beinir hann sérstaklega til fólks með aftanívagn. „Fólk vill taka þetta heilt heim,“ segir hann.

„Þó að ég búist við því að þetta verði í þeim dúr sem spáin er í núna, þá hefur það nú gerst áður að veðurspáin breytist,“ segir Siggi.