Kona á þrítugsaldri var í Héraðsdómi Reykjavíkur í síðasta mánuði dæmd í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárás með því að hafa sigað Doberman hundi á aðra konu, sparkað í andlit hennar og traðkað á brjóstkassa. Hún var einnig svipt ökuréttindum í hálft ár vegna aksturs undir áhrifum fíkniefna og lyfja. Þá var hún fundin sek um að hafa stolið tveimur hátölurum úr Elko.

Fyrir dómnum var lagt fram vott­orð læknis þar sem kom fram að hún hefði hlotið rif­beins­brot, mar í and­liti og klór­för sem lík­legast væru eftir hund. Þá er því líst að skrifuð hefði verið beiðnu um áfallahjálp fyrir konuna og að hún myndi þurfa stuðnings­með­ferð, jafn­vel sál­fræði­með­ferð, eftir á­rásina.

Brota­þoli kýldi á­kærðu

Sam­kvæmt dómnum var lög­regla kölluð til vegna líkams­á­rásar, en þegar hún hafi komið á vett­vang hafi ger­endurnir verið farnir af vett­vangi. Sögðu vitna að um væri að ræða ljós­hærða stelpu og strák með dóber­mann hund.

Bæði á­kærða og konan sem hún réðst á voru sam­mála um að til rifrildis hefði komið á milli þeirra á bíla­stæðinu. Lýsti á­kærða því þannig að hún hefði farið á­samt bróður fyrr­verandi kærast konunnar að sækja bíl.

Þegar þangað hefði verið komið hefði hún orðið vör við að konan hefði undir höndum þung­lyndis­lyf sem merkt hafi verið fyrr­verandi kærasta á­kærðu, sem nú er látinn. Þegar á­kærða hefði spurt hana hvar hún hefði fengið lyfin hafi hún orðið mjög æst.

„Hefði brota­þoli brugðist illa við, öskrað á hana og ráðist á hana, kýlt hana einu þungu höggi í höfuðið og rifið í hár hennar þannig að á­kærða hefð lent undir bif­reið,“ segir í dómnum.

Reyndi að siga hundinum á konuna

Við skýrslu­töku hjá lög­reglu sagði konan að á­kærða hafi sagt henni að hundurinn myndi „hakka hana í sig“ og skipað hundinum að „taka hana.“

Sagðist ákærað hins vegar ekki hafa getað sigað hundinum á ein­hvern, þar sem honum hafi ekki verið kennt það. Vitni lýstu því þó að hafa séð hund sem hafi aug­ljós­lega verið að ráðast á mann­eskju. Sagði á­kærða að hundurinn hafi vissu­lega verið á svæðinu, en að hann hefði einungis hlaupið um.

Vitni lýstu því fyrir lög­reglu að á­kærða hefði reynt að siga hundinum á konuna en hann hefði ekki hlýtt. „Þetta hefði endað með því að brota­þoli kýldi á­kærðu og allt varð vit­laust. Á­kærða hefði náð brota­þola niður og þær rifið hvor í aðra og hefði á­kærða náð nokkrum höggum á brota­ola og spörkum í síðu hennar.“ Hundurinn hefði virst verja eig­anda sinn og bitið brota­þola í aðra höndina.

Konan neitaði einnig að hafa sparkað í and­lit hennar. „Hún hefði að minnsta kosti ekki ætlað að gera þa en hefði sparkað í áttina að brota­þola og gæti ekki úti­lokað höggið hefði farið í and­lit hennar.“

Dæmd í þriggja mánaða skil­orðs­bundið fangelsi

Taldi dómurinn það vera ó­sannað að á­kærða hefði dregið brota­þola í jörðina og þá var hún sýknuð af stór­felldri líkams­á­rás en dæmd fyrir líkams­á­rás. Var það metið henni til mildunar á dómi að hún játaði ský­laust þjófnaðinn sem hún var á­kærð fyrir og var hún því dæmd í þriggja mánaða skil­orðs­bundið fangelsi, auk þess sem hún var svift bíl­prófi í hálft ár.