Þingmenn innan fulltrúadeildar Bandaríkjaþings munu á morgun greiða atkvæði um hvort ákæra eigi Donald Trump, sitjandi Bandaríkjaforseta, til embættismissis ef Mike Pence, sitjandi varaforseti Bandaríkjanna, ákveður ekki að beita 25. viðauka bandarísku stjórnarskráarinnar til að víkja Trump úr embætti.
Þingmennirnir munu í nótt greiða atkvæði um hvort það eigi að kalla formlega eftir því að Pence beiti 25. viðauka vegna hlutverks Trumps í óeirðunum við þinghúsið í Washington, D.C., í síðustu viku. Pence hefur þó verið hikandi við það og því voru ákærur til embættismissis kynntar í gær en margir óttast hvað muni gerast þar til Joe Biden tekur við embætti forseta.
Þingmenn virðast flýja Trump
Nokkrir þingmenn Repúblikana hafa lýst því yfir að þeir séu hlynntir því að Trump verði ákærður til embættismissis en ef það gerist verður það í annað sinn sem Trump er ákærður. Meðal þeirra sem eru sagðir styðja ákærurnar eru alla vega tólf fulltrúadeildarþingmenn, en þrír þingmenn Repúblikana hafa tilkynnt það opinberlega að þeir muni kjósa með því að ákæra Trump, þar á meðal Liz Cheney, dóttir Dick Cheney, fyrrum varaforseta Bandaríkjanna.
Þá er leiðtogi Repúblikana innan öldungadeildarinnar, Mitch McConnell, sagður vera ánægður með það að fulltrúadeildin ákæri Trump, samkvæmt frétt New York Times um málið, þar sem hann telur að um skýrt embættisbrot er að ræða og að brottrekstur Trumps myndi vera til þess að Repúblikanaflokkurinn yrði sameinaðri.
Aðrir hátt settir Repúblikanar, til að mynda Kevin McCarthy, leiðtogi minnihlutans innan fulltrúadeildarinnar, hafa ekki beint samþykkt að Trump verði ákærður en hafa þó ekki barist fyrir því að Repúblikanar kjósi gegn ákærunum. Ljóst er því að mikill klofningur á sér stað innan flokksins um þessar mundir
This happening fast. McConnell thinks Trump has committed impeachable offenses. Liz Cheney will vote yes; and Kevin McCarthy "the minority leader and one of Mr. Trump’s most steadfast allies in Congress, has asked other Republicans whether he should call on Mr. Trump to resign.."
— Charlie Sykes (@SykesCharlie) January 12, 2021
Áframhaldandi „nornaveiðar“
Fimm létust eftir óeirðirnar en Trump neitaði til að byrja með að fordæma aðgerðir stuðningsmanna sinna heldur virtist frekar hvetja þá til dáða. Degi síðar sagðist hann loks fordæma atvikið en hann virðist þó, að ákveðnu leiti, reyna að réttlæta gjörðir fólksins sem braust inn í þinghúsið og líkja óeirðunum við Black Lives Matter mótmælin, sem fóru að mestu friðsamlega fram.
Eftir að Twitter-aðgangi hans var eytt síðastliðinn föstudag hefur Trump lítið tjáð sig en aðspurður í morgun um hvort það stæði til að hann segði af sér, sagðist hann ekki vilja neitt ofbeldi. Þá hélt hann áfram og sagði að aðgerðir Demókrata til að koma honum úr embætti væru „áframhald á stærstu nornaveiðum sögunnar.“
Málið teygi sig fram yfir embættistöku Bidens
Meirihluti þingmanna innan fulltrúadeildarinnar þarf að samþykkja ákærurnar og þar sem Demókratar eru í meirihluta er líklegt að þær verði samþykktar. Öldungadeildin tekur síðan ákærurnar fyrir og fara þar fram hálfgerð réttarhöld en tveir þriðju þingmanna þurfa þar að samþykkja ákærurnar ef víkja á Trump úr embætti.
Gera má ráð fyrir að ef réttarhöldin fara fram að þau teygi sig fram yfir 20. janúar, þegar Biden tekur við embætti. Demókratar og Repúblikanar eru nú með jafn marga þingmenn innan öldungadeildarinnar eftir að hafa unnið bæði þingsætin sem stóðu til boða í Georgíu. Óljóst er hvort nógu margir þingmenn Repúblikana myndu ganga til liðs við Demókrata ef Trump verður ákærður.
Kinzinger is the third Republican to say he will vote to impeach. https://t.co/Y6hmIODzHA
— Josh Dawsey (@jdawsey1) January 12, 2021