Meira en 130 til­vik dular­fulls heila­skaða meðal banda­rískra diplómata hafa verið skráð hjá banda­ríska utan­ríkis­ráðu­neytinu, sam­kvæmt um­fjöllun banda­ríska miðilsins New York Times.

Heil­kennið hefur verið titlað „Havana heil­kennið“ þar sem fregnir bárust fyrst af því að banda­rískir diplómatar í sendi­ráði Banda­ríkjanna í Kúbu fóru að finna fyrir ó­út­skýrðum veikindum árið 2016. Urðu einhverjir meðal annars fyrir misalvarlegum heila­skaða. Þá bárust næst fréttir af svipuðum til­fellum meðal banda­rískra diplómata í Kína.

Í frétt New York Times kemur fram að til­vikin séu mun fleiri en áður hefur komið fram og mun víðar en bara þar. Í frétt New York Times kemur fram að banda­ríska leyni­þjónustan hafi einnig skráð til­vik vegna ó­út­skýrðra veikinda í Evrópu og Asíu og í Was­hington D.C.

Í desember síðast­liðnum gáfu banda­rísk vísinda­yfir­völd út skýrslu þar sem kom fram að heila­skaði meðal diplómata í Kína og í Kúbu væri lík­lega af­leiðing ein­hvers­konar ör­bylgna. Niður­stöður skýrslunnar hafa þó verið dregnar í efa af öðrum vísinda­mönnum.

Fyrst varð vart við dularfullu einkennin í sendiráði Bandaríkjanna á Kúbu árið 2016.
Fréttablaðið/AFP

Feðgar veiktust skyndi­lega á gatna­mótum

New York Times greinir frá því að ríkis­stjórn Joe Biden hafi miklar á­hyggjur af ó­út­skýrðum heila­skaða meðal diplómata. Þannig er nýju at­viki frá árinu 2019 lýst í um­fjöllun miðilsins.

Þar er því lýst hvernig liðs­foringi í Banda­ríkja­her sem staddur var í sendi­för er­lendis, neyddist til að aka bíl sínum út í kant eftir að hafa skyndi­lega upp­lifað svima og höfuð­verki á gatna­mótum. Tveggja ára sonur liðs­foringjans í aftur­sætinu er sagður hafa byrjað að gráta. Eftir að liðs­foringinn keyrði í burtu frá gatna­mótunum hvarf ó­gleðin og sonur hans hætti að gráta.

Kemur fram að banda­rísk yfir­völd hafi haft gríðar­legar á­hyggjur vegna þessa máls. Bæði liðs­foringinn og sonur hans fengu læknis­að­stoð í kjöl­farið en ekki kemur fram hvort að þeir hafi upp­lifað lang­varandi veikindi.

Segir í frétt miðilsins að banda­rísk yfir­völd hafi ekki hug­mynd um hvað sé um að ræða. Hvort um sé að ræða árás er­lends ríkis eða eit­hvað annað. Segir þó að ein­hverjir innan banda­ríska varnar­mála­ráðu­neytisins gruni rúss­nesku leyni­þjónustuna í til­viki liðs­foringjans og sonar hans.

Rúss­nesk yfir­völd hafa þver­tekið fyrir að bera nokkra á­byrgð á veikindunum. Haft er eftir Amöndu J. Schoch, tals­manni banda­rískra leyni­þjónustu­yfir­valda, að engar upp­lýsingar liggi fyrir um hvað veldur veikindunum og of snemmt sé að leggja í get­gátur um upp­runann.