Samkvæmt nýrri skoðanakönnun telja aðeins 43 prósent bresku þjóðarinnar að útganga Bretlands úr Evrópusambandinu hafi verið góð ákvörðun. Um 57 prósent telja að um mistök hafi verið að ræða.

Um er að ræða talsverða breytingu frá niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslunnar árið 2016 þar sem tæplega 52 prósent breskra kjósenda kusu að yfirgefa ESB. Útganga Bretlands úr sambandinu varð svo að veruleika 2020.

Hingað til hefur enginn af stærstu stjórnmálaflokkunum lagt fram nein áform um að krefjast nýrrar þjóðaratkvæðagreiðslu en næstu þingkosningar í Bretlandi eiga að fara fram eigi síðar en í janúar 2025.