Fólk sem bíður eftir völdum skurðaðgerðum þarf að gera ráð fyrir talsverðri bið eftir að komast í aðgerð. Samkvæmt samantekt embættis landlæknis á stöðu biðlista eftir völdum skurðaðgerðum má sjá að flestir bíði lengur en þrjá mánuði.

Frá þessu er greint á vef landlæknis.

Viðmið embættis landlæknis um ásættanlegan biðtíma kveður á um að 80 prósent sjúklinga komist í aðgerð innan þriggja mánaða eða 90 daga.

Af átján aðgerðarflokkum er viðmið um ásættanlega biðtíma landlæknis aðeins uppfyllt í þremur flokkum.

Hlutfall þeirra sem hafa beðið lengur en þrjá mánuði hefur heilt yfir hækkað en á tímabilinu hefur mest aukning orðið á hlutfallinu hjá þeim sem bíða eftir hjartalokuaðgerðum, kransæðamyndatöku og aðgerðum á blöðruhálskirtli að því er fram kemur á vef landlæknis.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, segir skýringar biðlistanna mega rekja að mestu leyti til kórónuveirufaraldursins og að heilbrigðisráðuneytið sé að kortleggja stöðuna.

Þetta kemur fram í skriflegu svari hans til Morgunblaðsins.

Willum Þór segir alla þurfa að hjálpast að við að stytta biðlista eftir aðgerðum. „Ráðuneytið hef­ur kallað eft­ir upp­lýs­ing­um frá öll­um þjón­ustu­veit­end­um um getu og áhuga til að fjölga aðgerðum til að stytta biðlista.“