Hröð þróun hefur orðið á fjölmiðlamörkuðum síðustu ár og áratugi. Minnkandi lestur dagblaða samhliða minnkandi áhorfi á línulega dagskrá kallar á róttækar breytingar hjá flestöllum fjölmiðlum landsins.

fjölmiðlar Þróun fjölmiðla og fjölmiðlamarkaða hefur ekki hægt á sér síðustu ár og má færa rök fyrir því að sú þróun verði sífellt hraðari.

Ef horft er til aukinnar flóru innan markaða má sjá að fleiri valkostir eru nú í boði en nokkurn tímann áður í sögunni. Dagblöð, tímarit, netmiðlar, hlaðvörp og útvarp blandast saman í umhverfi þar sem sífellt fleiri miðlar færast inn á stafrænt form.

Aukin færsla yfir á stafrænt form, fallandi línulegt sjónvarpsáhorf og dreifing neyslu hefur gjörbreytt því umhverfi sem hefur verið ríkjandi undanfarna áratugi.

Prentaðir miðlar á undanhaldi

Lengi hefur verið talað um að dagar hins prentaða miðils séu liðnir en lestur á dagblöðum á síðustu áratugum hefur hríðfallið.

Ef skoðaðar eru tölur frá Gallup má sjá að vissulega hefur lestur dagblaða hrapað statt og stöðugt frá árinu 2008 og virðist það fall ekki vera að hægja á sér.

Til að mynda var lestur á Fréttablaðinu árið 2008 í kringum 65 prósent en á Morgunblaðinu í kringum 41 prósent. Þessar tölur eru komnar niður í 27,7 prósent fyrir Fréttablaðið nú árið 2022 og 17,4 prósent fyrir Morgunblaðið.

Fræðimenn sjá sömu þróun

Valgerður Jóhannsdóttir, lektor í fjölmiðlafræði, segir að þær breytingar sem eru að eiga sér stað bendi alls ekki til minnkandi neyslu á fjölmiðlum, fremur hins gagnstæða.

„Ef maður er að hugsa um fjölmiðlaneyslu og áhorf í víðum skilningi þá held ég að það sé bara að aukast,“ segir hún og bendir á að við erum í æ meira mæli sítengd fjölmiðlum. „Það er að verða æ stærri hluti af sólarhringnum sem við verjum í einhvers konar fjölmiðlaneyslu,“ segir hún.

Valgerður segir að augljóst sé að lestur dagblaða sé minnkandi og telur hún ólíklegt að sú þróun muni snúast við. „Við höfum séð að lestur á prentuðum dagblöðum hefur verið á stöðugri niðurleið í áratugi. Ég held að það sé ekki eitthvað sem komi til með að breytast. Ég held að yngri kynslóðir muni ekki taka upp á því að lesa prentuð dagblöð síðar meir,“ segir hún.

Valgerður bendir þó á að þrátt fyrir að þessar breytingar séu að eiga sér stað þurfi það alls ekki að þýða að fjölmiðlum fari hrakandi í upplýsingaveitu sinni. „Eitt af því sem rannsóknir hafa bent á er að það skiptir ekki endilega máli hvaða vettvang þú notar til þess að sækja fréttir og upplýsingar. Hvort það er prentað dagblað, sjónvarpsfréttir sem þú horfir á í sófanum klukkan sjö eða netmiðill af einhverju tagi. Svo lengi sem þú færð réttar upplýsingar,“ segir Valgerður.

Valgerður Jóhannsdóttir lektor í fjölmiðlafræði.

Hún bendir þó einnig á að við lesum fjölmiðla á netinu á annan hátt en þá sem við lesum í prentuðu formi. „Þetta er yfirborðskenndara, þú skannar meira,“ segir hún.

Viðbrögð við breytingum

Jón Þórisson, forstjóri Torgs, tekur í sama streng og Valgerður og segir að þrátt fyrir að hinar hefðbundnu miðlunarleiðir séu á undanhaldi sé fjölmiðlaáhorf ekki að minnka. „Ef maður horfir yfir svið fjölmiðla er ekki hægt að segja að neysla á fjölmiðlum hafi dregist saman. Hins vegar má auðvitað segja að fjölmiðlum hafi fjölgað þannig að það liggur í hlutarins eðli að neysla á hvern einstakan fjölmiðil hefur kannski dregist saman,“ segir Jón en Torg ehf., sem gefur út Fréttablaðið, hefur tekið mið af þeim minnkandi lestri sem greinst hefur hjá lesendum.

Jón segir að fjölmiðlar verði að vera óhræddir við að skoða nýjar leiðir til útgáfu. „Sem dæmi má nefna BT, sem ætlar að hætta útgáfu blaðsins á prenti og gefa út eingöngu á rafrænu formi. Þeir verða þá ekki endilega vefmiðill heldur yrði uppsetning blaðsins nákvæmlega sú sama og hún hefði verið á prenti,“ segir hann.

„Það er mjög athyglisverð tilraun og ég hef fulla trú á að þeim muni takast að halda þeirri útgáfu áfram,“ segir Jón og bætir við: „Þá er eðlilegt að menn spyrji hvort það sé eitthvað sem gæti gerst á okkar miðli. Við verðum að horfast í augu við það að á einhverjum tímapunkti í framtíðinni mun Fréttablaðið, sem ber ægishjálm yfir aðra miðla hér á landi hvað varðar útbreiðslu og lestur, hætta að koma út á prenti.“

Jón Þórisson forstjóri Torgs.

Stefán Eiríksson útvarpsstjóri segir að RÚV hafi nýverið samþykkt á fundi í júní stefnu RÚV til næstu ára og að hún verði kynnt á Útvarpsþingi sem haldið verður 22. september.

„Í fyrri stefnu var einmitt verið að horfa til þeirra miklu breytinga sem orðið hafa í umhverfi fjölmiðla á síðustu árum, og á grunni þeirrar vinnu sem og áframhaldandi greiningar með fjölbreyttum hætti var unnið að nýrri stefnu,“ segir Stefán og tekur fram að stefnuáherslur RÚV séu margvíslegar. „Þær eru áframhaldandi stafræn þróun RÚV, fréttir og þjóðfélagsrýni, menning og miðlun, fjölbreytileiki, jafnræði og þátttaka allra og loks sjálfbær þróun og samfélagsleg ábyrgð.“ Með þessu verði unnið að áframhaldandi styrkingu miðilsins til að viðhalda áhorfi og upplýsingagjöf til almennings.

Sjónvarpsáhorf minnkar einnig

Mikið hefur verið hamrað á þeirri staðreynd að lestur á dagblöðum fari minnkandi en ef skoðaðar eru tölur um sjónvarpsáhorf einstaklinga almennt kemur í ljós að slíkt áhorf fer einnig minnkandi.

Samkvæmt tölum sem fengnar voru hjá Gallup hefur sjónvarpsáhorf almennt hrunið á síðustu árum. Tölurnar sem hér birtast eiga við almennt áhorf einstaklinga á sjónvarp sem nemur 5 mínútum eða meira á sama sólarhringnum.

Tekið var mið af aprílmánuði síðustu 10 árin en árið 2013 mældist sjónvarpsáhorf 67,2 prósent meðal markhópsins 12-80 ára hjá Ríkissjónvarpinu en 46,5 prósent í sama markhópi hjá Stöð 2. Árið 2021 var þessi tala komin niður í 52,5 prósent hjá Ríkissjónvarpinu en 17 prósent hjá Stöð 2 sem sýnir að mikil minnkun hefur átt sér stað.

Stefán Eiríksson útvarpsstjóri.

Sérstaklega mikið hrun hefur orðið í áhorfi á miðil Stöðvar 2. Áhorf hrynur frá apríl 2020 til 2021 úr 36,5 prósentum niður í 17 prósent. Hrunið má mögulega skýra með þeirri ákvörðun að hætta að senda út fréttatíma Stöðvar 2 í opinni dagskrá.

Þannig eru það ekki einungis lestrartölur dagblaðanna sem hafa lækkað heldur hafa almennar áhorfstölur á sjónvarpsmiðla einnig lækkað.

Ársskýrsla Fjölmiðlanefndar 2021

Í skýrslu um miðlalæsi á Íslandi sem unnin var af Fjölmiðlanefnd árið 2021 má sjá margar af þeim breytingum sem orðið hafa á fjölmiðlamörkuðum. Könnunin var framkvæmd af Maskínu fyrir Fjölmiðlanefnd.

Í heildina sagðist 47,1 prósent þátttakenda nota hlaðvörp vikulega eða oftar. Þeir sem nýta sér hlaðvörp eru aðallega tekjuhærri einstaklingar og þeir sem hafa meiri menntun.

Þrátt fyrir minnkandi hlutdeild dagblaða, sjónvarps og útvarps voru þessi miðlar þó oftast nefndir sem mikilvægustu fréttamiðlarnir að mati þátttakenda. Þetta bendir til þess að hefðbundnar tegundir miðla njóti enn virðingar þó að notkun þeirra fari minnkandi.

Langflestir, eða 86,4 prósent þátttakenda, nefndu þó fréttamiðil á netinu sem miðil sem notaður var til að nálgast fréttir deginum fyrir könnunina.

Einungis 26,9 prósent þátttakenda sögðust hafa notað dagblað deginum áður til þess að nálgast fréttir.

Í yngsta aldursflokknum sögðust 92,5 prósent hafa notað samfélagsmiðil á síðastliðnum 30 dögum til að nálgast fréttir.