Fjöldi fólks bíður núna í röð eftir því að komast inn í Partý­búðina í Skeifunni. Af myndum að dæma virðast til­vonandi við­skipta­vinir Partý­búðarinnar hins vegar vera passa betur upp á tveggja metra regluna en í vikunni.

Frétta­blaðið greindi frá því á fimmtu­daginn að ör­tröð hafði myndast fyrir utan Partý­búðina og fjöl­margir voru að brjóta tveggja metra regluna.

Af myndum að dæma virðist sem að starfsmaður Partýbúðarinnar hafi verið sendur út að fylgjast með fólki og tryggja að farið sé eftir settum reglum.

Tveggja metra reglan tók aftur gildi á höfuð­borgar­svæðinu þann 6. októ­ber síðast­liðinn og var inn­leidd á öllu landinu þann 20. októ­ber. Hertar sóttvarnareglur yfirvalda tóku gildi á miðnætti þar sem fólk er meðal annars hvatt til að koma ekki saman að óþörfu.

Þar er einnig kveðið á um grímu­skyldu þar sem ekki er hægt að við­hafa tveggja metra regluna. Þá mega ekki fleiri en 10 manns koma saman.

Starfsmaður Partýbúðarinnar fylgist með gestum í röðinni.
Ljósmynd/aðsend

Hrekkja­vöku­há­tíðin er lík­lega á­stæðan fyrir því að öng­þveiti hefur verið við búðina síðast­liðna daga en Partý­búðin hefur verið með sér­staka kvöldopnun í þessari viku til að dreifa um­ferðinni.

Frið­rik Jóns­son, hár­greiðslu­maður á Slippnum deildi mynd­bandi af röðinni á fimmtu­daginn og skrifaði „Svo finnst okkur skrítið að á­standið versni bara í sam­fé­laginu..."