„Þetta er andar­tak sem sumt fólk er búið að bíða eftir í mörg misseri,“ segir Sif Sig­mars­dóttir, rit­höfundur og pistla­höfundur, í sam­tali við Frétta­blaðið um það sem virðist vera fall Boris John­son og ríkisstjórnar hans.

Sif er bú­sett í Bret­landi og segist ekki hafa tekið augun af sjón­varpinu í dag vegna atburðarásarinnar í breskum stjórnmálum.

„Manni finnst þetta andar­tak, fall Borisar, hafa gerst næstum því oft áður en hann hefur alltaf sloppið fyrir horn. Akkúrat núna þá sýnist manni hann ekki getað komið sér undan þessu lengur,“ segir Sif.

Sif Sigmarsdóttir segir Í­halds­flokkinn vera orðinn að hálf­gerðu að­hláturs­efni.

Ólafur Þ. Harðarson stjórnmálafræðiprófessor segir það einkenna feril Borisar í stjórnmálum að hann verði uppvís að því að segja ósatt. Í þetta sinn hangir pólitískt líf breska forsætisráðherrans á bláþræði vegna stuðnings hans við Íhaldsþingmanninn Chris Pincher sem sakaður er um ósæmilega hegðun í einkaklúbbi.

„Þetta mál er í sjálfu sér síðasti naglinn í kistuna,“ segir Ólafur.

Rætt verður við Ólaf og Eirík Bergmann stjórnmálafræðiprófessora í Fréttavaktinni á Hringbraut í opinni dagskrá sem hefst klukkan 18:30. Einng sýnum frá átökunum á breska þinginu í dag í fyrirspurnartíma til forsætisráðherra. Hér má sjá brot úr viðtalinu á Fréttavaktinni í kvöld

Sif segir Boris hafa oft áður sent stjórn­mála­menn í sjón­varpið til að snúa út úr fyrir sig. „En að þessu sinni þá sendi hann þing­menn í sjón­varps­við­töl og út­varps­við­töl og lét þá í rauninni ljúga og þeir vissu ekki að þeir væru að ljúga,“ segir hún og bætir við að það hafi verið kornið sem fyllti mælinn að hann láti fólk ljúga fyrir sig.

Sif vísar þarna til þess að Boris hafi skipað Chris Pincher sem varaformann þingflokksins vitandi að hann væri sakaður um kynferðislega áreitni. Boris hélt því alltaf fram að hann hafi aldrei vitað það og fékk fólk til að ljúga til að verja hann.

„Fjöldinn allur af afsögnum ráðherra hefur borist frá því í gærkvöldi. Þegar fréttin er unnin hafa 33 meðlimir ríkistjórnarinnar sagt af sér, þar af eru bæði ráðherrar og undirráðherrar sem starfa í umboði ákveðinna ráðherra.“

Hröð at­burða­rás

„Það eru mjög margir sem trúa varla að þetta sé að gerast. Það eru mjög margir sem ég þekki sem eru mjög spenntir og glaðir en ég er viss um að fólk annarra pólitískra skoðana séu ekki jafn glaðir. Manni sýnist þó að í­halds­fólk sé fegið að losna við hann,“ segir Sif.

Sif segir Í­halds­flokkinn vera orðinn að hálf­gerðu að­hláturs­efni. „Ég held að það sé nú helsta á­stæðan fyrir því að flokkurinn virðist vera núna að losa sig við hann, flokkurinn er búinn að missa allan trú­verðug­leika,“ segir hún.

Að­spurð að því hvort Sif haldi að Boris muni segja af sér eða hvort hann muni þrauka fram að van­trausts­til­lögu segir hún vera erfitt að segja til um það. „Ef þú hefðir spurt mig í morgun þá hefði ég sagt að hann myndi þrjóskast fram að van­trausts­til­lögu en áðan bárust fréttir af því að Michael Gove hefði safnað liði og sagt honum að þetta væri búið,“ segir Sif en Gove er einn af framá­mönnum Í­halds­flokksins.

Þrír ein­staklingar eru lík­legir til að taka við af Boris, að mati Sifjar, en hún segir skortur á arf­taka vera ein helsta á­stæðan fyrir því að Í­halds­menn séu ekki búnir að losa sig við hann.

Rishi Sunak og Boris Johnson.

„Michael Gove er þekktur fyrir að hafa metnað þannig að það er aldrei að vita að hann gefi kost á sér. Svo er Rishi Sunak, hann var vonar­stjarna flokksins í nokkra mánuði og Sajid Ja­ved síðan,“ segir Sif um mögu­lega arf­taka. Ja­ved og Sunak voru þeir tveir ráð­herrar sem sögðu af sér í gær sem hóf þá bylgju af af­sögnum sem ríður nú yfir.

Telur ó­lík­legt að boðað verði til kosninga

„Það kæmi mér ekkert á ó­vart ef það yrði reynt að halda þessu gangandi,“ segir Sif, að­spurð um hvort boðað verði til kosninga ef Boris segir af sér. „Ég held það vilji enginn aukinn ó­stöðug­leika,“ bætir hún við.

Keir Star­mer, leið­togi Verka­manna­flokksins, er einnig „hálf­veikur“ að mati Sifjar og hún telur hann ekki vera æstan í kosningar. „Þannig að ég held að ill­skásti kosturinn væri nýr leið­togi og svo munu þeir dröslast í tvö ár í við­bót og síðan væru kosningar,“ segir Sif.

Sif segir að almennt sé litið á vanda­mál Boris og Í­halds­flokksins sem synd, því það er að mörgu að huga í Bret­landi. Verð­bólga fer hækkandi og kostnaður við að lifa hækkar. „Það er í rauninni al­gjör­lega van­rækt á meðan Boris er bara að reyna að bjarga eigin skinni.“