Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra hefur vikið Sif Konráðsdóttur, aðstoðarmanni sínum, frá störfum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ráðuneytinu.

 „Ég hef tekið þá ákvörðun að Sif Konráðsdóttir, aðstoðarmaður minn, hætti störfum frá og með deginum í dag. Ég óska Sif alls hins besta og þakka henni fyrir samstarfið," segir Guðmundur í tilkynningunni. 

Sif hefur verið nokkuð til umfjöllunar í fjölmiðlum, en hún starfaði sem lögfræðingur og var kærð til Lögmannafélagsins fyrir að greiða barni, sem hún starfaði sem réttargæslumaður fyrir, ekki bætur sem umbjóðandi hennar fékk. Bæturnar voru vegna dóms í kynferðisbrotamáli gegn barninu.

Sif skilaði inn lögmannsréttindum sínum í kjölfarið og flutti úr landi. Ólöf Rún Ásgeirsdóttir, sem fékk ekki greiddar bæturnar fyrr en eftir dúk og disk, sagði það hafa verið reiðarslag að sjá Sif fá stöðu aðstoðarmanns ráðherra. Hún hafi leitað til annars lögmanns til að fá bæturnar greiddar. 

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra sagði í samtali við Stöð 2 í síðustu viku að hann treysti Sif til starfans. Þau unnu einnig samhliða hjá Landvernd áður en Guðmundur settist í stól ráðherra.

Sif hefur ekki viljað tjá sig við fjölmiðla vegna þessa máls. 

Þá var greint frá því í Fréttablaðinu í dag að Guðmundur Ingi hafi til meðferðar mál um friðun jarðar í eigu Sifjar, en friðunin gæti komið í veg fyrir lagningu Blöndulínu 3. Sif og maður hennar, Ólafur Valsson, hafa barist gegn lagningu línunnar, og hafa þannig persónulegra hagsmuna að gæta. 

Í samtali við blaðið í gær sagðist Sif ekki telja ráðherra vanhæfan til að taka ákvörðun um friðlýsingu svæðisins, þó undirmaður hans, hún í þessu tilviki, hafi barist fyrir því að jörðin verði friðuð til að koma í veg fyrir lagningu línunnar. 

Uppfært: Sif Konráðsdóttir hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna málsins. Hana má lesa hér að neðan í heild sinni.

Yfirlýsing frá Sif Konráðsdóttur

Í ljósi frétta að undanförnu vegna uppgjörs við skjólstæðinga mína frá árinu 2008 og ótímabærra starfsloka minna sem aðstoðarmaður umhverfis- og auðlindaráðherra vil ég gjarnan taka fram eftirfarandi:

Ég lét af lögmannstörfum haustið 2007 og flutti til útlanda af persónulegum ástæðum. Í kjölfarið hóf ég störf hjá alþjóðastofnun og lagði tímabundið inn lögmannsréttindi mín, svo sem mér bar að gera. Allmörgum málum var ólokið þegar ég fór utan, þar á meðal uppgjöri við þrjá skjólstæðinga mína sem verið höfðu brotaþolar í tveimur kynferðisbrotamálum. Uppgjör við þá dróst úr hömlu af ástæðum sem ég ber ábyrgð á.

Mér þykir afar leitt að hafa valdið þessum skjólstæðingum mínum óþarfa óþægindum og hugarangri umfram það sem þeir höfðu þegar mátt þola og bið þá innilega afsökunar á því.

Rétt er að fram komi að fjármunirnir voru alla tíð til staðar hér á landi og allir fengu greitt að fullu, þótt það hafi dregist óhæfilega, eða þar til í janúar 2008.

Virðingarfyllst,

Sif Konráðsdóttir.