Sif Huld Alberts­dóttir hefur formlega beðist lausnar úr bæjarstjórn Ísafjarðar, í ræðu sem hún flutti á síðasta fundi í gær segist hún hafa undir höndum skýrslu sem staðfesti að einelti í sinn garð hafi viðgengist í áraraðir.

Sif Huld steig fram fyrr í þessum mánuði, hefur hún gert bótakröfu á hendur Ísafjarðarbæ. Kvörtun hennar snýr að starfsmanni Ísafjarðarbæjar.

Sif Huld hefur setið í bæjar­stjórn síðast­liðin þrjú ár fyrir hönd Sjálf­stæðis­flokksins. Í yfirlýsingu sem hún birtir á Facebook þakkar hún íbúum Ísafjarðarbæjar traustið.

„Eins og þið flest vitið hef ég sem framkvæmdastjóri BsVest kvartað undan erfiðum og vondum samskiptum í minn garð í langan tíma. Þegar loksins ég ákvað að stíga fram og leggja fram formlega kvörtun undan vandanum var vandinn orðinn það stór að ég taldi að um einelti væri að ræða,“ sagði hún.

„Nú hef ég í höndunum skýrslu þar sem Ísafjarðarbær lét hlutlaust fyrirtæki taka út vandann. Þar kemur fram að einelti í minn garð hefði viðgengist í 7-8 ár.“

Birgir Gunnars­son, bæjar­stjóri Ísa­fjarðar­bæjar, sagði í samtali við Fréttablaðið fyrr í þessum mánuði að kvörtun Sifjar hafi komið fram í desember og það hafi verið brugðist strax við. Sif Huld hefur verið bæjar­full­trúi undan­farin þrjú ár en er fram­kvæmda­stjóri Byggða­sam­lags um mál­efni fatlaðra og kom kvörtunin þaðan að sögn Birgis, en ekki vegna eða tengt störfum hennar sem bæjar­full­trúa.

Sif Huld segir að í skýrslunni sé minnst á hlut Ísafjarðarbæjar í þessu máli, grípa hefði mátt fyrr inn í. „Í eineltisstefnu Ísafjarðarbæjar kemur skýrt fram að ekki er þörf á að setja kvörtun í formlegt ferli til þess að hún sé tekin alvarlega, nóg á að vera að benda á vanda og í þessu tilfelli ítrekaði ég vandann við nokkra bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar.“

Hún segir einnig að eftir að málið fór í formlegt ferli þá hafi hún viljað ná sáttum við meintan geranda. „Lítið hefur þokast í málinu síðastliðna mánuði, þó skal segja frá því að með öllum líkindum er verið að ganga frá samningi um nýjan sáttarmiðlara í vikunni, til að vinna málið áfram. Tíminn frá því að niðurstaða skýrslunnar kom og þangað til í dag er alltof langur tími.“

Kaldar kveðjur

Birgir sagði í samtali við Mannlíf nýverið að meintur gerandi nyti trausts og haldi sínu starfi.

Sif gerði það að umræðuefni í ræðu sinni. „Ísafjarðarbær er stærsti vinnuveitandi á Norðanverðum Vestfjörðum, og ég spyr hvernig eiga starfsmenn Ísafjarðarbæjar sem verða fyrir einelti að geta treyst því að faglega verði tekið á þeirra málum þegar að æðsti embættismaður bæjarins kemur opinberlega fram og lýsir trausti við gerendur.“

Setti hún þetta svo í annað samhengi.

„Og ég spyr einnig – sérstaklega eftir að kennarar hafa haft haft samband við mig vegna málsins. Hvernig eiga kennarar barnanna okkar sem starfa hjá bænum, sem vinna við það að uppræta einelti innan skólanna, að bregðast við þegar þeirra yfirmaður er tilbúinn að leggja blessun sína yfir að aðrir starfsmenn séu lagðir í einelti,“ segir hún.

„Þetta eru ekki bara kaldar kveðjur sem ég fæ, heldur einnig ljót skilaboð sem við erum að senda út í samfélagið með því að leyfa ofbeldi að viðgangast.“