Siðgæðislögregla Írans hefur verið lögð af að sögn ríkissaksóknara Írans. Al Jazeera greinir frá.
Hörð mótmæli í landinu hafa nú staðið yfir í á þriðja mánuð í kjölfar andláts hinnar 22 ára gömlu Masha Amini í september síðastliðnum, en hún var handtekin af siðgæðislögreglunni fyrir að hafa ekki fylgt lögum um klæðaburð. Henni var gert að sök að bera höfuðslæðu sína ekki með réttum hætti.
Amini lést á spítala, þremur dögum eftir handtökuna, en fjölskylda Amini telur að hún hafi verið barin illilega í haldi siðgæðislögreglunnar.
Íranskir fréttamiðlar greina nú frá því að ríkissaksóknari Írans, Mohammad Jafar Montazeri, hafi gefið það út að siðferðislögreglan hefði engin tengsl við dómskerfið. Því hafi hún verið lögð af.
Montazeri gaf þó ekki upp hvort að siðgæðislögreglan verði lögð af til lengri eða skemmri tíma. Þá bendir ekkert til þess að lög um klæðaburð verði afnumin að svo stöddu.
Siðgæðislögregla Írans hóf eftirlit árið 2006, í forsetatíð Mahmoud Ahmadinejad. Tilgangur lögreglunnar var að fylgjast með hvort konur í landinu færu að lögum um klæðaburð og bæru slæðuna sem skyldi. Grænir og hvítir sendibílar voru aðalsmerki siðgæðislögreglunnar, en þó hafa slíkir bílar ekki sést á götum Teheran eða þar í kring í talsverðan tíma.
Lögreglan fór í reglulegt eftirlit og fylgdist með konum á götum bæjarins og veitti þeim tiltal ef þeir töldu þær brjóta í bága við reglur um slæðunotkun eða klæðaburð. Í sumum tilfellum voru konurnar teknar og þeim fylgt í svokallaða „endurmenntunarstöð,“ líkt og í tilfelli Masha Amini.