Sið­gæðis­lög­regla Írans hefur verið lögð af að sögn ríkis­sak­sóknara Írans. Al Jazeera greinir frá.

Hörð mót­mæli í landinu hafa nú staðið yfir í á þriðja mánuð í kjöl­far and­láts hinnar 22 ára gömlu Masha Amini í septem­ber síðast­liðnum, en hún var hand­tekin af sið­gæðis­lög­reglunni fyrir að hafa ekki fylgt lögum um klæða­burð. Henni var gert að sök að bera höfuðs­læðu sína ekki með réttum hætti.

Amini lést á spítala, þremur dögum eftir hand­tökuna, en fjöl­skylda Amini telur að hún hafi verið barin illi­lega í haldi sið­gæðis­lög­reglunnar.

Íranskir frétta­miðlar greina nú frá því að ríkis­sak­sóknari Írans, Mohammad Jafar Montazeri, hafi gefið það út að sið­ferðis­lög­reglan hefði engin tengsl við dóms­kerfið. Því hafi hún verið lögð af.

Montazeri gaf þó ekki upp hvort að sið­gæðis­lög­reglan verði lögð af til lengri eða skemmri tíma. Þá bendir ekkert til þess að lög um klæða­burð verði af­numin að svo stöddu.

Sið­gæðis­lög­regla Írans hóf eftir­lit árið 2006, í for­seta­tíð Mahmoud Ahma­dinejad. Til­gangur lög­reglunnar var að fylgjast með hvort konur í landinu færu að lögum um klæðaburð og bæru slæðuna sem skyldi. Grænir og hvítir sendi­bílar voru aðals­merki sið­gæðis­lög­reglunnar, en þó hafa slíkir bílar ekki sést á götum Teheran eða þar í kring í tals­verðan tíma.

Lög­reglan fór í reglu­legt eftir­lit og fylgdist með konum á götum bæjarins og veitti þeim til­tal ef þeir töldu þær brjóta í bága við reglur um slæðu­notkun eða klæða­burð. Í sumum til­fellum voru konurnar teknar og þeim fylgt í svo­kallaða „endur­menntunar­stöð,“ líkt og í til­felli Masha Amini.