„Það er áhugavert að sjá að það virðist breytilegt eftir því hvað þú gerir af þér hvort útskúfun eigi sér stað eða ekki,“ segir Helgi Gunnlaugsson, afbrotafræðingur og prófessor við Háskóla Íslands, vegna Kveiksþáttar RÚV í vikunni.

Í Kveik lýsti íslenskur leikari, Þórir Sæmundsson, þeirri útskúfun og atvinnumissi sem hann varð fyrir eftir að hafa sent typpamyndir af sjálfum sér til ólögráða stúlkna.

Hann telur sig hafa verið leiddan í gildru, þar sem hann hafi ekki vitað um aldur viðtakenda. Þá hafi hann ekki haft frumkvæði að samskiptunum.

Helgi segir að siðferðismörk sem snerti samskipti kynjanna leyfi núna ekkert umburðarlyndi eins og fram hafi komið í Kveiksþættinum. Jafnvel þótt engin refsiverð háttsemi eigi sér stað.

„Við erum að komast á þann stað að karlar þurfa að horfast í augu við eigin gjörðir sem þeir hafa ekki þurft að gera,“ Kristín Bjarnadóttir, hjúkrunarfræðingur.

Brot eða háttsemi á viðskiptasviðinu leiði ekki af sér sams konar útskúfun til framtíðar. Í viðskiptalífinu þurfi stundum að líða tiltekinn tími þar sem viðkomandi brotamaður megi ekki vera í stjórn hlutafélags. Hann geti svo snúið aftur að því er virðist án mikilla erfiðleika.

„Áhrif MeToo og vitundarvakningar mestmegnis kvenna eru því enn umtalsverð og bera vitni um langvarandi upplifun á kúgun og þöggun á rétti þolenda kynferðisbrota og stöðu kvenna almennt sem brýst fram með þessum hömlulausa hætti, í útskúfun allra sem hafa „misstigið“ sig á siðferðissviðinu,“ segir Helgi.

„Eru gerendur að taka út sök hinnar eitruðu karlmennsku fyrir allt karlkynið í sögunnar rás?“ spyr Helgi.

Hann segir að einstaklingar eigi ekki bara afturkvæmt á viðskiptasviðinu heldur sé sú raunin með mörg önnur brot. Hann segir útskúfun til langframa aldrei heilbrigða.

Auðveldlega snúist slíkt til hins verra, ekki bara fyrir hinn útskúfaða heldur virki oft eins og olía á þann eld sem flestir vilja slökkva. Harkan virðist meiri núna en við höfum séð í seinni tíð.

Kristín Bjarnadóttir hjúkrunarfræðingur er í hópi þeirra sem mjög hafa látið brot gegn konum til sín taka. Spurð hvort samtímamenn séu nú að taka út sök eitraðrar karlmennsku fyrir allt karlkyn í sögunnar rás, segir hún að gerendur þurfi fyrst nú að horfast í augu við sjálfa sig og taka út sinn dóm eftir að hafa beitt ofbeldi.

Kristín Bjarnadóttir
mynd/aðsend

Umræðan sé hins vegar að komast á nýtt plan með nýjum og menntuðum kynslóðum.

„Við erum að komast á þann stað að karlar þurfa að horfast í augu við eigin gjörðir sem þeir hafa ekki þurft að gera,“ segir Kristín.

Hún bendir á hið kynbundna misræmi, að um 300 konur segist árlega verða fyrir nauðgun á Íslandi á sama tíma og engir karlar segist hafa nauðgað þeim.

„Þolendur hafa fundið sína rödd og skilað skömminni. Ég er ósammála að þetta sé gild spurning hjá afbrotafræðingnum,“ segir Kristín.