Signa Hrönn Stefánsdóttir harmar það að 86 ára gömul amma hennar, sem glímir við heilabilun, fái ekki viðunandi meðhöndlun á öldrunarheimili á Akureyri vegna manneklu. Að sögn Signu er stundum aðeins einn starfsmaður á vakt á níu manna deild, en allir sjúklingar deildarinnar þurfa mikla aðhlynningu. „Allir sem eitthvað vit hafa sjá að þetta gengur ekki upp. Hvernig á ein manneskja að geta sinnt öllu þessu fólki og þeirra þörfum?,“ segir Signa í samtali við Fréttablaðið.

Viðbrögð frá starfsfólki

Signa birti í gærkvöldi færslu á Facebook sem hefur farið eins og eldur í sinu um vefinn. „Ég er búin að fá alveg gríðarlega mikið af viðbrögðum bæði frá fólki í sömu stöðu og ég og frá starfsfólki innan heilbrigðisgeirans,“ segir Signa. Hún segir alveg ljóst að þetta sé ekki eina deildin sem glímir við manneklu upp að því marki að starfsfólk geti ómögulega sinnt vinnu sinni.

„Ástæða þess að maður hikar við að tala um þetta er að það bitnar alltaf á starfsfólkinu sem á það minnst skilið.“ Signa segir ekkert við starfsfólk að sakast sem sé undir gríðarlegu álagi og fái verkefni sem krefjist yfir þrjú hundruð prósent vinnu.

„Þegar það er ekki nóg af starfsfólki er ekki hægt að hugsa um einstaklingana eins og það ætti að vera gert.“

Einn á vakt með níu sjúklinga

Amma Signu er á níu manna deild og þegar vaktin er fullmönnuð eru tveir starfsmenn á vakt. Einnig eru hjúkrunarfræðingar í húsinu en þau sjá um allt húsið sem telur 45 einstaklinga. Signa tekur fram að oft komi upp forföll og þá sé aðeins einn starfsmaður sem sér um deild ömmu hennar. Hún segir dæmið einfaldlega ekki ganga upp þegar tekið er tillit til þess að sá starfsmaður þurfi að sinna klósettferðum, baðferðum, elda og gefa fólki að borða ásamt því að halda öllu heimilinu snyrtilegu.

„Ég meina ég má ekki starfa sem leikskólakennari og hafa meira en fimm börn. Það virðist hins vegar vera í lagi að ein manneskja sjái um níu fullorðna einstaklinga bara af því að þeir eru gamlir.“ Signa segir að þetta geti ekki verið siðferðislega rétt, hvorki gagnvart íbúum né starfsfólki.

Grét ein í hjólastólnum

„Ég er ekki þarna daglega eins og mamma og systkini mömmu, ég er með mín börn og það vita allir að það tekur sinn tíma,“ segir Signa og bætir við að ef hún hefði aðstöðu til þess myndi hún helst vilja hafa ömmu sína heima hjá sér og sjá um hana sjálf vegna ástandsins á öldrunarheimilinu.

„Móðursystir mín kom í heimsókn um daginn þar sem amma grét ein í hljóði í hjólastólnum sínum,“ segir Signa og bætir við að hún reyni að hugsa ekki um hvað eigi sér stað þegar aðstandendur séu ekki á svæðinu. „Þegar afi minn var á deildinni aðstoðaði hann við ýmis verkefni þar sem hann hafði heilsu til. Eitt sinn stóð í íbúa við matarborðið og hann var sá eini sem tók eftir því, þar sem starfsfólk var í óða önn við að sinna öðrum verkefnum, hann bjargaði lífi mannsins en ég veit ekki hvað hefði gerst ef hann hefði ekki verið á staðnum.“

Þarf að bíða með klósettferðir

Signa segir ömmu sína borga nóg fyrir að fá að vera á heimilinu en telur augljóst að peningum sé ekki varið á réttum stöðum. „Þegar fólk þarf að bíða með að fá að fara á klósettið vegna þess að það er verið að sinna þörfum annarra sjúklinga þá hlýtur eitthvað að vera að kerfinu.“ Hún segir afsökun stjórnarmanna um að það sé ekki til nóg af peningum til að sinna heilbrigðiskerfinu ekki standast, peningum sé einfaldlega eytt á röngum stöðum.

Hún segist hálfpartinn vera farin að vona að á næsta afmælisdegi ömmu sinnar muni hún heimsækja hana upp í kirkjugarð og kveikja á kerti fyrir hana þar, í staðinn fyrir að vera reið og sár yfir því sem eigi sér stað uppi á öldrunarheimilinu.

„Svo til að bæta gráu ofan á svart heyrir gamla fólkið í hverjum fréttatíma að þjóðin standi fyrir þeim mikla vanda að gamla fólkið lifi of lengi og það sé allt of dýrt fyrir þjóðfélagið. Einn íbúi heimilisins sagði að það væri líklega best fyrir alla að þeim yrði bara öllum lógað.“

Biðlar til stjórnvalda

Signa segist vera vonlítil um að breytingar í þessum málum muni líta dagsins ljós á næstu misserum. Hún vonar þó að fólk taki þetta til sín, þá á hún ekki við starfsfólk sem vinni sína vinnu fram að kulnun heldur yfirvöld. „Hversu sárt ætli það sé að heyra daglega að þú sért byrgði á þjóðfélaginu eftir að hafa unnið allt þitt líf til að halda því uppi?“