Íslenskt útiræktað grænmeti er um það bil tveimur vikum seinna á ferðinni í ár en vanalega. Ástæðan er kalt vor. „Maímánuður var kaldur og það rigndi lítið,“ segir Kristín Linda Sveinsdóttir, markaðsstjóri Sölufélags garðyrkjumanna.

„Veðrið var auðvitað misjafnt eftir landshlutum en aðalútiræktunarsvæðið er Flúðasvæðið á Suðurlandi og þar var kalt,“ segir Kristín.

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands var maímánuður hér á landi þurr um allt land og óvenju lítið rigndi fyrstu þrjár vikur mánaðarins. Meðalhiti í Árnesi í maí síðastliðnum var 4,8 stig sem er 1,7 stigum undir meðaltali áranna 1991 til 2020.

„Kartöflurnar komu á markað í síðustu viku og við erum farin að sjá glitta í litla fallega blómkálshausa sem verða stórglæsilegir innan skamms, næstu vikurnar mun þetta svo allt tikka inn,“ segir Kristín. Þá segir hún að innan skamms megi meðal annars finna íslenskt spergilkál, gulrætur, hvítkál, sellerí, hnúðkál og rauðrófur í verslunum landsins.

„Rauðrófur eru auðvitað súper­fæða og af því að það er mikil eftirspurn eftir þeim þá hafa okkar bændur sett meira niður af rauðrófu­fræjum og svo vonum við að veðrið verði þannig að uppskeran verði meiri,“ segir Kristín.

Spurð að því hvernig veður sé hagstæðast til grænmetisræktunar segir Kristín það vera ágætis hlýindi með sól og rigningu til skiptis. „Það er jafnslæmt að vera með endalausa rigningu og að hafa endalausa sól, þá þarf að vökva,“ segir hún.

Kristín segir grænmetisbændur á Íslandi þó heppna hvað varðar aðgengi að vatni til vökvunar. „Bændur á Flúðasvæðinu nota sem dæmi bara vatnið úr Hvítánni til þess að vökva garðana,“ segir hún.

Ákveðin nýjung á íslenskum grænmetismarkaði er þetta árið íslenskar radísur að sögn Kristínar. „Það er bóndi á okkar vegum farinn að rækta radísur og þær eru komnar á markað í einhverju magni og ef markaðurinn tekur þeim vel er hægt að auka magnið.“

Aðspurð um aðrar breytingar eða nýjungar á markaði segir Kristín ákveðnar breytingar vera að eiga sér stað varðandi neyslu á rauðkáli. „Það vildi aldrei neinn kaupa rauðkál nema bara fyrir jólin en núna með nýrri kynslóð og aukinni fjölbreytni er rauðkál bara að verða vinsælla og vinsælla,“ segir hún og bætir við: „Rauðkálið er orðið vinsælt í salat og kemur í verslanir eftir svona tvær vikur ásamt hvítkáli.“

Aðrar breytingar segir Kristín snúa að umbúðum grænmetisins. Radísurnar komi til að mynda í plastfötum með loki úr pappa sem geri það að verkum að fatan innihaldi um 40 prósent minna plast en vani sé.

„Við leggjum okkur mikið fram um að vera umhverfisvæn en ákveðnu grænmeti er nauðsynlegt að pakka inn,“ útskýrir Kristín. „Með umbúðunum reynum við að koma í veg fyrir matarsóun, merkja grænmetið til að aðgreina það frá innfluttu grænmeti og sýna fram á rekjanleika þess.