Allir þeirra hermanna sem tóku þátt í frelsun Auschwitz-útrýmingarbúðanna við lok síðari heimsstyrjaldar eru nú látnir eftir að rússneski hermaðurinn David Dushman lést 98 ára að aldri. Hann lést á heimili sínu í Munchen í Þýskalandi.
Dushman barðist í hinum sovéska Rauða her í stríðinu en að því loknu sneri hann sér að skylmingum og náði nokkrum frama þar, einkum sem þjálfari. Alþjóðaólympíunefndin greindi frá andláti hans í tilkynningu.

Þann 27. janúar 1945 ók Dushman skriðdreka sínum af gerðinni T-34 yfir rafmagnsgirðinguna sem umkringdi útrýmingarbúðirnar í Póllandi. Þar höfðu nasistar myrt um 1,1 milljónir manna, að stærstum hluta gyðinga. Talið er að um 1,3 milljón hafi verið send í búðirnar.
„Við vissum nánast ekkert um Auschwitz,“ sagði hann í viðtali við þýska dagblaðið Sueddeutsche árið 2015 og rifjaði upp að hann hefði séð „beinagrindur út um allt.“

„Þær komu út úr húsunum, sátu og láu meðal hinna dauðu. Hræðilegt. Við köstuðum til þeirra öllum dósamatnum okkar og fórum strax að veiða fasistana,“ sagði hann. Dushman varð ekki ljóst umfang grimmdarverka nasista fyrr en eftir stríðslok.
Hann var einn 69 hermanna úr sinni herdeild sem lifðu stríðið af en særðist þó mikið.
Nasistar myrtu meira um sex milljónir gyðinga í helförinni og voru útrýmingarbúðirnar í Auschwitz þær stærstu. Auk gyðinga voru þar myrtir samkynhneigðir, Róma-fólk og sovéskir stríðsfangar.
