Landsréttur hefur veitt Lögreglustjóranum á Suðurnesjum heimild til að rannsaka innihald Samsung farsíma í eigu manns sem er til rannsóknar fyrir líkamsárásir og líflátshótanir.

Málið má rekja til 23. október þegar lögreglan fékk símtal frá vörubílstjóra um mann sem væri að elta sig. Sagði hann það vera vegna fyrrverandi kærustu mannsins, sem vörubílstjórinn „var að reyna við“.

Brotaþolinn var að keyra vörubíl þegar hann tók eftir því að maðurinn væri að elta sig. Þorði hann ekki að stíga út úr bílnum þegar hann kom á sinn áfangastað þar sem maðurinn hefði hótað honum ítrekað dagana áður. Hafði hann fengið frá kærða „fullt af skilaboðum, raddskilaboðum, Facebook skilaboðum og fleira með hótunum“.

Teygði sig inn um rúðuna og kýldi hann í magann

Brotaþolinn fékk nóg af líflátshótunum og ákvað að loka fyrir Facebook skilaboðin en fékk þá hótanir frá manninum um sektir fyrir að svara ekki skilaboðunum.

„Því oftar sem hann svari ekki hefði kærði sagt brotaþola tapa pening og þegar brotaþoli hefði spurt hvað kærði meinti með því hefði kærði svarað; síðasti aðili sem að sveik mig svona, ég kveikti í bílnum hans.“

En aftur að atvikinu þann 23. október: Þegar brotaþolinn neitaði að fara út úr bílnum stökk hinn kærði upp á stigbretti á vörubílnum, teygði sig inn um rúðuna og kýldi brotaþolann sjö til átta sinnum meðal annars í augað, nefið, ennið og í magann.

Vitni á staðnum staðfestu þetta við lögreglu sem hóf rannsókn á málinu og fann fyrrnefndar hótanir í síma brotaþolans.

Sonur eiganda bílsins varð vitni að árásinni

Einstaklingur sem átti bílinn sem hinn ákærði keyrði þegar hann elti brotaþolann, hafði samband við lögreglu og sagðist hafa fengið tvö símtöl frá hinum kærða þetta kvöld. Fyrra símtalið var um að hann væri að liggja fyrir brotaþola og bíða eftir honum. Sonur þessa einstaklings varð vitni að árásinni og fékk faðirinn hótanir frá hinum kærða í seinna símtalinu.

„Í síðara símtalinu hafði hann í frammi hótanir gegn syni vitnisins sem varð vitni að hinni meintu árás kærða gegn brotaþola.“

Mikilvægar upplýsingar í símanum

Telur lögregla rökstuddan grun til að ætla að síminn hafi að geyma samskipti, myndir og fleiri upplýsingar sem gætu skipt miklu fyrir rannsókn og dómsmeðferð nokkurra mála. Þar á meðal er íkveikjumál og mál sem varðar ætluð brot hans gagnvart fyrrverandi kærustu sinni og barnsmóður sem er til afgreiðslu hjá embætti héraðssaksóknara.

Héraðsdómur Reykjanessi úrskurðaði 27. október síðastliðinn að lögreglan mætti skoða innihald farsímans og kærði maðurinn úrskurðinn til Landsréttar daginn eftir. Landsréttardómarar tóku undir með héraðsdómara að lögreglan væri með rökstuddan grun um að upplýsingar í símanum gætu skipt miklu við rannsókn málanna.