Í dag fór fram svo­kölluð „há­tíðar­sprenging“ í Dýra­fjarðar­göngum þegar síðasta haftið á milli Dýra­fjarðar og Arnar­fjarðar var sprengt. Sigurður Ingi Jóhanns­son, sveitar­stjórnar- og sam­göngu­ráð­herra, var við­staddur sprenginguna og fékk að sjá um síðustu sprenginguna. Sigurður birti mynd­skeið á Face­book-síðu sinni að verkinu loknu og má það sjá að mikill fjöldi var við­staddur og fagnaði að sprengingu lokinni.

Sigurður Ingi segir í færslu sinni að bæði gleði og eftir­vænting hafi legið í loftinu og að um sér að ræða „lang­þráðan á­fanga í sam­göngu­bótum“.

„Verkið gengur vel og þegar einum á­fanga er náð þá eykst þrýstingur á að aðrar sam­göngu­bætur haldi á­fram. Vegur um Dynjandis­heiði er á á­ætlun og vegur um Gufu­dals­sveit þolir ekki lengri bið,“ segir Sigurður.

Hægt er að horfa á mynd­skeiðið hér að neðan.

Verkið hófst í júní árið 2017 með bæði að­stöðu­sköpun og vinnu við for­keringu í Arnar­firði. Fyrsta sprengingin fór fram í Arnar­firði þann 12. Septem­ber árið 2017. Fyrsta sprengingin í Dýra­firði fór síðan fram þann 12. Októ­ber árið 2018. Fram kemur í til­kynningu frá Vega­gerðinni að verkinu skuli vera að fullu lokið eigi síðan en 1. Septem­ber á næsta ári, 2020.

Þar kemur einnig fram að lengd ganganna í bergi er alls 5.301 metrar, veg­skálar 144 m og 156 m eða sam­tals 300 m. Heildar­lengd ganga með veg­skálum er 5.601 m. Í göngum eru 10 út­skot, þar af fjögur snúnings­út­skot. Inni í göngunum eru 4 steypt tækni­rými og 2 lítil fjar­skipta­hús utan ganga. Göngin eru mal­bikuð með steyptum upp­hækkuðum öxlum.

Byggður er nýr vegur beggja vegna ganga­munna. Nýir vegir eru um það bil 3 kíló­metrar Arnar­fjarðar­megin og 4,8 kíló­metrar Dýra­fjarðar­megin, eða sam­tals um 7,8 km auk tenginga. Vegurinn verður 8 metra breiður með 7 metra ak­braut.