Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, segir skýrt brot á kosningalögum að innsigla ekki atkvæðakassa. Hins vegar sé stóra spurningin sú hvort að brotið teljist nægilega alvarlegt til að ógilda kosninguna. Ólafur segir ólíklegt að það verði niðurstaða Alþingis.
Að sögn Ólafs sé afar líklegt að landskjörstjórn, sem fundar á morgun, muni skila af sér úrslitum í samræmi við síðari talningu í Norðvesturkjördæmi. Seinni talningin hafi bent til þess að rangt hefði verið talið í fyrri talningu.
„Það væri afskaplega einkennilegt ef menn ætluðu að notast við tölur sem búið er að sýna fram á að séu rangar.“
Má ekki hanga í óvissu
Ólafur segir mikilvægt að ákvörðun liggi fyrir sem fyrst. „Það er mjög mikilvægt fyrir traust á lýðræðinu að svona mál séu ekki látin hanga í óvissu lengi.“
Niðurstaða landskjörstjórnar er síðan send til Alþingis til skoðunar hjá kjörbréfanefnd sem er skipuð völdum þingmönnum.
Að sögn Ólafs hefur Alþingi alltaf samþykkt tillögu kjörbréfanefndar, nema einu sinni þegar þingið breytti niðurstöðu nefndarinnar, árið 1909.
Galið að þingið úrskurði um sjálft sig
Ólafur segir óánægju vera uppi um að nýkjörið Alþingi úrskurði um sig sjálft og er hann sammála þeirri gagnrýni.
Hann segir að „það sé nú eiginlega galið og afskaplega óheppilegt“ að fyrirkomulagið skuli vera svona.
Fréttablaðið greindi frá því í morgun að nýlegt dómafordæmi frá yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu sem tengist þingkosningum í Belgíu gefi vísbendingu um að endurskoða þurfi úrskurðarvald Alþingis um kjör þingmanna.
Úrelt fyrirkomulag
Ólafur segist margoft hafa bent á að þetta fyrirkomulag sé galið og úrelt og að því þurfi að breyta. Til þess að breyta fyrirkomulaginu þurfi að breyta stjórnarskránni. Það hafi reynst erfitt.
„Ég held að líkurnar á því að þessu verði breytt núna séu meiri en áður, bæði vegna þess að þetta mál kemur upp núna og líka vegna þess að MDE hefur látið í ljós það álit að þetta fyrirkomulag sé mjög óeðlilegt.“
Undirbúningskjörbréfanefnd hefji störf strax
Willum Þór Þórsson starfandi þingforseti hefur sagt að undirbúningsvinna fyrir störf nýrrar kjörbréfanefndar muni hefjast á Alþingi strax að lokinni úthlutun þingsæta sem fer fram á fundi sem landskjörstjórn hefur boðað á morgun.
Hann segir að kallað verði eftir tilnefningum þingflokka í undirbúningskjörbréfanefnd sem ætti að geta hafið störf strax á mánudag.
Sú nefnd undirbúi rannsókn á kjörbréfum með tilliti til þeirra athugasemda sem fylgja, hún hafi engin völd til að úrskurða um neitt. Hin eiginlega kjörbréfanefnd, sem gerir tillögur til þingsins um gildi kjörbréfa, taki til starfa eftir þingsetningu.
Fréttablaðið greindi frá því fyrr í dag að Þórunn Sveinbjarnardóttir þingmaður yrði fulltrúi Samfylkingar í undirbúningskjörbréfanefnd á Alþingi sem tekur til starfa á morgun eftir að landskjörstjórn úthlutar þingsætum á grunni kosningaúrslita.