Siðanefnd Háskóla Íslands hefur ákveðið að taka kvörtun Bergsveins Birgissonar, rithöfundar og doktors í norrænum fræðum, til efnislegrar meðferðar.

Kvörtun Bergsveins varðar meintan ritstuld Ásgeirs Jónssonar, seðlabankastjóra í nýútgefinni bók hans, Eyjan hans Ingólfs.

Þetta var ákveðið á fundi nefndarinnar sem fór fram í dag, mbl.is greindi fyrst frá.

Skúli Skúlason, formaður siðanefndar, staðfestir þetta í samtali við mbl.is. Hann segir að nú muni nefndin afla allra nauðsynlegra gagna til að hún geti veitt álit um málið.

Þá sé allur gangur á því hversu langan tíma það taki nefndina að veita álit sitt og ekki sé búið að ákveða dagsetningu næsta fundar.

„Við mun­um leggj­ast und­ir felld núna. Ég held það sé skyn­sam­leg­ast fyr­ir alla,“ segir Skúli í samtali við mbl.is.

Fréttablaðið greindi frá því í síðustu viku að kæra Bergsveins gegn Ásgeiri Jónssyni, seðlabankastjóra Íslands, yrði tekin upp á fundi nefndarinnar í dag.

Málsmeðferð mála af þessu tagi gætu tekið upp undir hálft ár.

Alvarlegar ásakanir

Í greinar­gerð um málið, sem Berg­sveinn fékk birta á Vísi í fyrra­dag, ber hann fram al­var­legar á­sakanir á hendur Ás­geiri og sakar hann meðal annars um rit­stuld, „og það svo um­fangs­mikinn að mér er til efs að við­líka dæmi séu til í sögu ís­lenskrar bóka­út­gáfu,“ segir meðal annars í greinar­gerðinni, sem er ítar­leg.

Bergsveinn segir einnig í greinaferð sinni að það sé graf­alvar­legt mál að saka ein­hvern um rit­stuld. „En rit­stuldur sá sem ég tel Ás­geir Jóns­son vera sekan um í þessu til­felli er að sama skapi graf­alvar­legt mál. Það gerir málið enn al­var­legra að seðla­banka­stjóri Ís­lands sé upp­vís að þjófnaði á hug­verkum annarra.“