Siðanefnd Háskóla Íslands hefur ákveðið að taka kvörtun Bergsveins Birgissonar, rithöfundar og doktors í norrænum fræðum, til efnislegrar meðferðar.
Kvörtun Bergsveins varðar meintan ritstuld Ásgeirs Jónssonar, seðlabankastjóra í nýútgefinni bók hans, Eyjan hans Ingólfs.
Þetta var ákveðið á fundi nefndarinnar sem fór fram í dag, mbl.is greindi fyrst frá.
Skúli Skúlason, formaður siðanefndar, staðfestir þetta í samtali við mbl.is. Hann segir að nú muni nefndin afla allra nauðsynlegra gagna til að hún geti veitt álit um málið.
Þá sé allur gangur á því hversu langan tíma það taki nefndina að veita álit sitt og ekki sé búið að ákveða dagsetningu næsta fundar.
„Við munum leggjast undir felld núna. Ég held það sé skynsamlegast fyrir alla,“ segir Skúli í samtali við mbl.is.
Fréttablaðið greindi frá því í síðustu viku að kæra Bergsveins gegn Ásgeiri Jónssyni, seðlabankastjóra Íslands, yrði tekin upp á fundi nefndarinnar í dag.
Málsmeðferð mála af þessu tagi gætu tekið upp undir hálft ár.
Alvarlegar ásakanir
Í greinargerð um málið, sem Bergsveinn fékk birta á Vísi í fyrradag, ber hann fram alvarlegar ásakanir á hendur Ásgeiri og sakar hann meðal annars um ritstuld, „og það svo umfangsmikinn að mér er til efs að viðlíka dæmi séu til í sögu íslenskrar bókaútgáfu,“ segir meðal annars í greinargerðinni, sem er ítarleg.
Bergsveinn segir einnig í greinaferð sinni að það sé grafalvarlegt mál að saka einhvern um ritstuld. „En ritstuldur sá sem ég tel Ásgeir Jónsson vera sekan um í þessu tilfelli er að sama skapi grafalvarlegt mál. Það gerir málið enn alvarlegra að seðlabankastjóri Íslands sé uppvís að þjófnaði á hugverkum annarra.“