Að mati siðanefndar RÚV eru engar forsendur til að bregðast við beiðni Helga Seljan um endurupptöku úrskurðar nefndarinnar frá 29. mars síðastliðnum.

Í svari nefndarinnar til Helga er því hafnað að Sigrún Stefánsdóttir hafi verið vanhæf til að úrskurða í máli hans, mistök sem gerð hafi verið vegna einna umæla Helga hafi verið leiðrétt. Þá séu úrskurðir hennar endanlegir og nefndin ekki bundin af stjórnsýslulögum. 

Ekkert bendi til vanhæfi Sigrúnar

Helgi vísaði í beiðni sinni til meints vanhæfis Sigrúnar Stefánsdóttur, eins nefndarmanns í siðanefndinni vegna tengsla hennar og Samherja í gegnum störf Sigrúnar, annars vegar í Háskólanum á Akureyri, sem þegið hefur styrki frá Samherja og hins vegar vegna setu hennar í stjórn sjónvarpsmiðilsins N4, sem er í óbeinni eigu fyrirtækisins gegnum Fjárfestingafélagið Vör og Síldarvinnsluna. 

Um hið meinta vanhæfi Sigrúnar segir í svari nefndarinnar til Helga:

„Seta hennar í stjórn fjölmiðilsins N4, undanfarin 7 ár, sem sjálfstæður stjórnarmaður er öllum kunn. Hún er ekki eigandi fjölmiðilsins né á fjölmiðillinn sérstakra og verulegra hagsmuna að gæta í málinu. Fjölmiðillinn er jafnframt með skýrar reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði og stjórn hans kemur að engu leyti að ritstjórn og daglegum störfum.“

Ekki er í bréfi nefndarinnar minnst á grein eftir Sigrúnu sem birtist í Kjarnanum í fyrra um styrki til einkarekinna fjölmiðla.

„Því hefur ekkert komið fram sem raskar því mati að hún hafi verið hæf til að kveða upp úrskurð í málinu og ekkert komið fram sem dregur óhlutdrægni hennar með réttu í efa.“

Um starf Sigrúnar í Háskólanum á Akureyri segir í svarinu að um afmarkað verkefni, Vísindaskóla unga fólksins, hafi verið um að ræða. Það hafi verið greitt af Háskólanum á Akureyri, þó starfsemi skólans sé vissulega studd af 20-25 fyrirtækjum á Akureyri.

„Því hefur ekkert komið fram sem raskar því mati að hún hafi verið hæf til að kveða upp úrskurð í málinu og ekkert komið fram sem dregur óhlutdrægni hennar með réttu í efa,“ segir í svari siðanefndarinnar.

Nefndin telur sig ekki bundna af stjórnsýslulögum

Þótt Helgi hafi ekki óskað eftir áfrýjun á málinu heldur endurupptöku þess, tekur nefndin fram í bréfi sínu að úrskurðir hennar séu endanlegir og verði ekki áfrýjað. Tekið er fram að nefndin sé ekki skipuð samkvæmt lögum, hafi ekki aðildarhæfi né́ sé hún stjórnvald í skilningi stjórnsýslulaga. Því sé hún ekki bundin af stjórnsýslulegum, þrátt fyrir að hún „byggi á meginreglum sem gilda í́ stjórnsýslunni, hvað varðar að upplýsa málið, andmæli og jafnræði aðila í málsmeðferðinni,“ að því er fram kemur í svari nefndarinnar.

Um mistökin sem siðanefndin gerði varðandi ummæli sem alls ekki tengdust kæranda málsins, Samherja, heldur auglýsingu um fyrirtækið Eldum rétt, segir í bréfi nefndarinnar að þegar nefndinni var gert viðvart um mistökin hafi þau umsvifalaust verið leiðrétt og aðilum tilkynnt um það. Þeim hafi þá einnig verið greint frá því mati nefndarinnar mistökin hefðu ekki áhrif á niðurstöðu málsins.

Úrskurðurinn hafi engin áhrif á störf Helga

Í bréfi Helga til siðanefndarinnar er áréttað að hann eigi verulegra hagsmuna að gæta af því að málið verði endurupptekið. Svo virðist sem siðanefndin fallist ekki á það mat en í svari nefndarinnar segir:

„[S]iðanefnd RÚV úrskurðar á grunni siðareglna starfsmanna RÚV og mælir ekki fyrir um nein viðurlög. Útvarpsstjóri og yfirstjórn RÚV hafa tilkynnt að af þeirra hálfu fylgi engin viðurlög í kjölfar úrskurðar nefndarinnar og hann hafi engin áhrif á störf Helga Seljan hjá RÚV. Stjórn RÚV hefur jafnframt lýst yfir að málið sé ekki á hennar valdsviði og hún muni ekki aðhafast neitt í málinu.“

Undir bréfið skrifar formaður nefndarinnar, Gunnar Þór Pétursson, prófessor. 

Hvorki náðist í Helga Seljan, né lögmann hans Vilhjálm H. Vilhjálmsson, við vinnslu fréttarinnar.