Siða­nefnd RÚV mun í dag svara bréfi Vil­hjálms H. Vil­hjálms­sonar, lög­manns Helga Seljans, þar sem krafist var þess að farið yrði fram á niður­fellingu úr­skurðar siðanefndarinnar um að Helgi hafi gerst brotlegur við siðareglur RÚV með umfjöllun sinni um Samherja.

Helgi telur Sig­rúnu Stefáns­dóttir, einn með­lim siða­nefndarinnar, hafa verið van­hæfa í málinu vegna tengsla sinna við Sam­herja. Fram kemur í frétt Kjarnans að Sig­rún hefur frá árinu 2014 starf­rækt Vísinda­skóla unga fólksins við Há­skólann á Akur­eyri en Sam­herji er einn af styrktar­aðilum skólans. Þá er Sig­rún einnig stjórnar­maður í fjöl­miðla­fyrir­tækinu N4 á Akur­eyri, sem er að hluta til í ó­beinni eigu Sam­herja.

Sig­rún vildi ekki tjá sig um málið þegar blaða­maður hringdi í hana en sagði að Siðanefndin muni senda frá sér svar síðar í dag.

„Við erum búin að senda frá okkur eða munum gera það í dag, svar við bréfi lög­fræðings hans og það er það sem að við höfum að segja,“ segir Sig­rún.

Fréttin var uppfærð kl. 14:50.