Siðanefnd Alþingis hefur klárað álit sitt um Klaustursmálið og sent forsætisnefnd. Nú hafa umræddir þingmenn frest fram í lok þessarar viku til að skila andsvörum sínum. Álitið verður gert opinbert eftir að forsætisnefnd klárar málið, sem verður líklega í næstu viku. RÚV greinir frá.

Forsætisnefnd leitaði til siðanefndar vegna Klaustursmálsins og komst siðanefnd að þeirri niðurstöðu að ummæli þingmannanna sex á Klaustri sem náðust á upptöku, félli undir gildissvið siðareglna þingsins. Niðurstaðan var sú að staða þingmanna sem opinberar persónur skipti máli og að háttsemin á Klausturbar hafi átt sér stað á opinberum vettvangi og tengist málum sem hafi verið áberandi í þjóðfélagsumræðunni.

Klaustursmálið hefur vægast sagt vakið mikla athygli en þing­menn Flokks fólks­ins og Miðflokks­ins sátu saman á barnum Klaustri þann 20. nóv­em­ber síðastliðinn og töluðu niðrandi um ýmsa sam­starfs­menn sína á Alþingi. Bára Halldórsdóttir uppljóstrari tók upp samtöl þingmannanna og sendi á fjölmiðla. Í kjölfarið fór af stað mikil umræða um hátterni þingmanna, kynjahyggju, fötlunarfordóma og hommahatur. Borgarleikhúsið efni til leiklesturs á þeim texta sem hafði komið fram og var frítt inn og viðburðinum streymt í gegnum netið.

Fjórir þingmenn, þau Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Anna Kolbrún Árnadóttir og Bergþór Ólason, kvörtuðu til Persónuverndar og töldu að brotið hefði verið gegn friðhelgi þeirra. Persónuvernd úrskurðaði að upptökur Báru væru ólöglegar og var henni gert að eyða þeim fyrir 5. júní. Bára eyddi upptökunum í beinni við hátíðlega athöfn á Gauknum.

Fyrr í sumar staðfesti forsætisnefndin álit siðanefndar í máli Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, þingmanns Pírata, vegna ummæla hennar um Ásmund Friðriksson. Siðanefndin komst að þeirri niðurstöðu að Þórhildur Sunna hafi brotið í bága við ákvæði siðareglna þingsins með ummælum um Ásmund Friðriksson og endurgreiðslur sem hann naut frá Alþingi á grundvelli skráninga í akstursdagbók hans.