Landsréttur staðfesti í dag úrskurð Héraðsdóms Suðurlands um gæsluvarðhald yfir manni sem kærður hefur verið fyrir þrjár líkamsárásir. Lögreglan í Vestmannaeyjum greindi frá því á dögunum að áverkar brotaþola hafi í tveimur tilvikum verið minniháttar en í einu tilviki meiriháttar.

Sjá einnig: Kærður fyrir þrjár líkamsárásir í sömu vikunni

Maðurinn hefur einnig verið kærður fyrir fjölmörg önnur brot; hótanir, húsbrot, eignaspjöll, þjófnað, vopnalaga- og fíkniefnabrot. Hann hefur verið kærður fyrir ofbeldi og hótanir gagnvart lögreglu og fyrir að stinga á dekk lögreglubíls.

Héraðsdómur Suðurlands sagði í gæsluvarðhaldsúrskurði yfir manninum þann 16. mars að verulegar líkur væru á því að maðurinn myndi halda áfram brotastarfsemi sinni, gengi hann laus. Hann skuli því sæta varðhaldi til 12. apríl.