Karlmaður á fertugsaldri var í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald, að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Kemur þetta fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, en maðurinn er grunaður um fjölda brota á undanförnum vikum, meðal annars nauðgun, ránstilraun og líkamsárásir.
Maðurinn var handtekinn í gærmorgun í austurborginni í tengslum við rannsókn miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar.
Gæsluvarðhaldið grundvallast að meðal annars á því að það sé nauðsynlegt að verja annað fólk frá árásum mannsins, en úrskurður héraðsdóms um gæsluvarðhald var kærður til Landsréttar.
Í samtali við Fréttablaðið í gær sagði Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn í miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar að málið væri í rannsókn en það er ekki talið tengjast skipulagðri brotastarfsemi.