Álit ráðgefandi siðanefndar sem forsætisnefnd leitaði til vegna Klaustursmálsins er að ummæli þingmannanna sex á Klaustri sem náðust á upptöku, falli undir gildissvið siðareglna þingsins. Einn nefndarmanna skilaði séráliti en Alþingi birti álitið í heild sinni nú í kvöld.

Niðurstaðan er í grófum dráttum sú að staða þingmanna sem opinberar persónur skipti máli og að háttsemin á Klausturbar hafi átt sér stað á opinberum vettvangi og tengist málum sem hafi verið áberandi í þjóðfélagsumræðunni. „Þar sem hátternið varðar almenning verður ekki litið á þau atvik sem hér um ræðir sem einkasamtal.“

Einn nefndarmannanna, Róbert Haraldsson, skilaði inn eins og áður segir séráliti. Hann segir að Persónuvernd hafi en ekki gefið upp sinn úrskurð um Klaustursmálið og bendir á að málið sé einstakt hér á landi og að siðanefnd hafi ekki tekist að finna neitt hliðstætt dæmi sem komið hefur fyrir sambærilegar nefndir í öðrum löndum.

Nefndin óskaði eftir umsögnum frá þingmönnunum sex. Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson skiluðu sameiginlegri umsögn en þetta var áður en þeir höfðu gengið til liðs við Miðflokkinn. Þeir hafna því að einkasamtöl sem þeir eiga sín í milli eða við aðra þingmenn geti talist fela í sér opinbera framgöngu þeirra sem alþingismanna. Það skipti ekki máli þó að þingfundur hafi staðið yfir þar sem alkunna er að þingmenn eigi í hvers konar samtölum innan og utan þinghúss ef þeir eru ekki þátttakendur í umræðum í þingsal eða á nefndafundum.

Miðflokksþingmennirnir fjórir lögðu fram sameiginlegt álit þar sem þau vísuðu í friðhelgi einkalífsins og hvernig stjórnarskráin verndi rétt manna til að láta í ljós skoðanir sínar. Kemur fram í umsögninni að slík tjáning varði enga aðra, aðeins samvisku þess sem lætur hana hana í ljós.

Álitið má lesa í heild sinni hér.