Leó Daðason, verjandi Shpetim Qerimi eins sakbornings í Rauðagerðismálinu fyrir Landsrétti, segir skjólstæðing sinn ekki hafa haft vitneskju um það hvern Angjelin Stekaj, sem játaði á sig morðið á Armando Beqiri og fékk sextán ára dóm, hafi verið að fara hitta þegar hann ók honum í Rauðagerði kvöldið Armando var skotinn til bana fyrir utan heimili sitt.

Þriðji og síðasti dagur í aðalmeðferð Rauðagerðismálsins fyrir Landsrétti hófst í morgun og lauk nú upp úr hálf þrjú í dag. Leó flutti sinn málflutning síðastur verjanda í dag.

Shpetim er gefið að sök að hafa ekið ásamt Angjelin að Rauðagerði, þar sem Armando bjó, kvöldið sem hann var myrtur. Þá er honum gefið að sök að hafa sleppt Angjelin úr bílnum og ekið svo aðeins í burtu þar sem hann beið eftir að Angjelin gæfi honum merki um að sækja sig.

Shpetim bar fyrir sig að hafa verið fullur daginn sem morðið var framið í skýrslutöku í héraði. Leó segir hann hafa talið að tilgangur ferðarinnar í Rauðagerði þetta kvöld hafi verið vegna fíkniefnaviðskipta.

Leó segir Shpetim ekki hafa vitað hvern Angjelin hafi ætlað að hitta og þá hafi hann ekki gert neina tilraun til að hylja slóð sína en hann fór norður með Angjelin eftir að morðið var framið.

Leó krefst þess, líkt og verjendur hinna tveggja sakborninganna sem sýknaðir voru einnig í héraði vegna málsins, að skjólstæðingur sinn verði sýknaður fyrir Landsrétti líkt og í héraði.

Angjelin Sterkaj var dæmdur í sextán ára fangelsi í október í fyrra fyrir morðið á hinum þrjátíu og þriggja ára gamla Armando Begiri fyrir utan heimili hans í Rauðagerði í Reykjavík um miðjan febrúar í fyrra. Hann hefur alltaf haldið því fram að hafa verið einn að verki.

Í ákæru Héraðssaksóknara fyrir héraðsdómi var byggt á því að morðið hefði verið skipulagt í sameiningu þeirra þriggja sem ákærð voru ásamt Angjelin. Ekki taldist unnt að sanna að þremenningarnir hafi vitað eða mátt vita hvað væri í vændum.

Þríeykið var því sýknað vegna málsins í héraði og unaði ákæruvaldið ekki niðurstöðunni og áfrýjaði til Landsréttar.

Hafa allir verjendur þremenninganna krafist þess fyrir Landsrétti að þau yrði sýknuð aftur.

Líkt og greint hefur verið frá krefst saksóknari hærri refsingar fyrir Angjelin, úr sextán árum í átján til tuttugu ár. Auk þess að krefjast minnst fimm ára fangelsi yfir þremenningunum fyrir aðild að málinu.

Dómarar hafa nú fjórar vikur frá og með deginum í dag til að kveða upp dóm í málinu.