Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt tvo pólska karlmenn í annars vegar fimm ára og hins vegar sex mánaða fangelsi vegna Shooters-málsins svokallaða. Þeir Artur Pawel Wisocki og Dawid Kornacki voru voru ákærðir fyrir að hafa ráðist á tvo dyraverði á skemmtistaðnum Shooters í ágúst í fyrra, en um er að ræða tvær árásir. Voru mennirnir báðir ákærðir fyrir að hafa ráðist á dyravörð fyrir utan Shooters umrætt kvöld. Artur Pawel var svo einnig ákærður fyrir árás á annan dyravörð með þeim afleiðingum að hann lamaðist fyrir neðan háls. 

Sjá einnig: Mennirnir hafi læðst meðfram veggjum „með hetturnar uppi“

Umrædd árás átti sér stað, sem fyrr segir, í ágúst í fyrra á skemmtistaðnum Shooters. Við aðalmeðferð málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í janúar sögðu bæði Artur og Dawid að dyraverðir Shooters hefðu komið illa fram við þá, sem og hóp manna sem þeir voru með, frá upphafi. 

Þeir sneru svo aftur á Shooters seinna um kvöldið með fyrrnefndum afleiðingum. Báður mannanna lýstu yfir mikilli iðrun í héraðsdómi og baðst Artur meðal annars frá því að horfa á upptöku af árásinni. Sagði hann að árásin væri það heimskulegasta sem hann hefði gert á ævinni. Fyrir dómi neitaði hann þó að hafa hrint dyraverðinum en játaði að hafa ráðist á þann dyravörð sem ekki meiddist jafn alvarlega. 

Sjá einnig: Baðst undan á­horfi: „Heimsku­legasta sem ég hef gert“

Dyravörðurinn, sem ekki meiddist jafn alvarlega bar vitni fyrir héraðsdómi sagði líf sitt hafa gjörbreyst eftir árásina og sagðist stöðugt hugsa um hvað hefði gerst fyrir hinn dyravörðinn, sem væri honum eins og bróðir. Dyravörðurinn sem lamaðist gerði kröfu um 120 milljóna króna bætur vegna árásinnar en fær hann dæmdar sex milljónir. Hinn dyravörðurinn fær sex hundruð þúsund krónur í bætur.